16.6.05

Hugleiðingar yfir plöstun

Plöstunarvélin er það sniðugasta sem hefur bæst við skrifstofubúnaðinn hérna lengi. Ég er orðin svo geðveikt plöstunarhneigð að allt sem er á leiðinni norður með okkur er að verða plastað. Sparifötin og hvaðeina.

Og á meðan maður plastar dót, dettur manni margt sniðugt í hug.
Eftirfarandi hefur hvarflað að mér annað slagið undanfarna mánuði:

Einhvern tíma sagði systir mín hin kjaftforri setningu sem hneykslaði mína rómantísku sál mjög djúpt. Hún sagðist aldrei myndu líta við manni sem ekki hefði háskólagráðu. Þóttu mér þetta vera, á sínum tíma, hinir verstu fordómar og mesta fásinna. Núna í alsíðustu tíð hef ég hins vegar endurskoðað hug minn og komist að því að líklega hefði ég átt að taka þetta til mín STRAX og gleyma því aldrei.

Ekki nóg með það, ég ætti aldrei að leggja lag mitt við neinn sem ekki hefur háskólagráðu Í HUGVÍSINDUM.

Það er ekki gráðan sjálf, heldur hvað hún stendur fyrir.
Sá sem hefur lagt á sig að ná háskólaprófi úr heimspekideild hefur endalaust úthald og þolgæði. Hann hefur sýnt það að hann getur eytt árum saman í þreytandi og tímafrek verkefni sem oft á tíðum eru leiðinleg og pirra mann auk þess að virðast vita tilgangslaus. Og aukinheldur eru engin fyrirheit um neins konar laun erfiðisins í formi fjármuna, starfsframa eða annars að námi loknu. Það eina sem gráðan gefur er möguleiki á að halda áfram í námi, sama strögglinu, bara erfiðara, um ókomna tíð.

Þetta eru einmitt eiginleikar sem menn þurfa að hafa, eigi mér eitthvað að haldast á þeim. Hugsunarhátturinn "Það er vont en það venst" og litlar kröfur um að lífið sé endilega skemmtilegt eða að erfiði skili endilega árangri.

Tekið skal fram að Rannsóknarskipið er með B.A. próf í ensku.

Engin ummæli: