4.9.05

Svo menn fái nú ekki endanlega hlönd fyrir hjörtun...

þá er víst líklega rétt að taka það fram að fyrirheit síðustu færslu tóku til EINS KVÖLDS sem haldið skal einhvern tíma næsta sumars að mjólkurbúslokun aflokinni. Þeir sem eitthvað þekkja til míns lífsmunsturs vita að ég hef ekkert verið að liggja íðí árum saman og sé ekki fram á að gera það neitt frekar í framtíðinni. Og mín drykkja á herðablöðin samanstendur af um 3 bjórum og þar enda þolmörkin og það gerist yfirleitt skömmu eftir miðnætti.

Mér þykir nú helvíti skítt að vera að fá á mig ávirðingar fólks fyrir að ætla að voga mér að eiga félagslíf og fá mér í tána eitt kvöld eftir ár. Og mér er mjög til efs að barnunginn taki uppá að taka tennur, læra að tala og ganga allt sama kvöldið, akkúrat á meðan.

Komm on fólks, hemja taugadrulluna.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svona svona Sigga mín kær.
Þú átt eftir að fara á djammið mörg kvöld....eftir tuttugu ár......
En ég hlakka líka til þegar við verðum orðnar rosknar og virðulegar frúr og herðablöðumst reisnarlítið í sameiningu, kvörtum undan tengdadætrum og fleiru.....
Ylfa

Nafnlaus sagði...

Tíhí. Alveg hef ég sérstakt lag á að skemmileggja stemninguna á skemmtilegustu bloggum veraldar – fyrst með drulluómerkilegri auglýsingu fyrir innmatargerð Ylfu – og nú hef ég ausið ómerkilegri taugadrullu yfir meintan alkóhólisma Sigríðar kLáru.

SEM hefur nota bene lýst því yfir að hún ætli að detta í það eftir ár – og mér finnst það alvarlegur hlutur!!! Það er lágmark að óléttasta kona heims verði ábyrgasta móðir heims!!!

Hvaðan kemur fólki sú fjárátta að taka mig alvarlega á gamals aldri?

Auðvitað veit ég að þú ert ekki drykkjusvoli og hefur aldrei verið það. Og auðvitað veit ég líka að þú verður gott foreldri – (þótt þú hafir aldrei verið það heldur :))

Mér fannst bara eitthvað svo fyndin (eins og flest sem þú skrifar) þessi gríðarlega óþreyja eftir áfengi sem skein í gegnum síðustu færslu. Kannski óafvitandi? Og fannst þess vegna fyndið að setja mig á sterílan, yfirlætisfullan umvöndunarháhest og gera úr þér óábyrgt drykkjufífl og óforeldri.

Þetta er nú gallinn við tölvusamskiptin. Það vantar skítaglottstakkann!

Nafnlaus sagði...

HÚSMÆÐRAORLOF - það er lausnarorðið. Þvílíkur unaður. Helgar-kvenna-ferð í norðlenskan eyðidal þar sem tófurnar gagga og knarrreistir gangnamenn með kafbojjhatta gleðja augað (blinda augað raunar því þeir eru ekki hálft eins lekkerir og bóndinn).
Þannig verður komandi helgi enda löngu búið að loka mjólkurbúum og barátta frúarinnar við að eignast líf sem er stjórnað af henni sjálfri í fullum gangi. Þá fær maður sér í tærnar, allar 10, taugadrullulaust.

Nafnlaus sagði...

Jamm, óbermið hann Sævar er búinn að segja það sem ég vildi sagt hafa, sumsé að ef þér finnst við stundum taka þig fullhátíðlega þá tekur þú okkur stundum alveg grafalvarlega þannig að skítaglottið á manni verður hálfvandræðalegt..taramm!

Varríus sagði...

Já, kæra Sigríður, þú verður að feisa það að vera eins og Falstaff, sem nótabene var líka með feituna og skemmtileguna:

"I am not only witty in myself, but the cause that wit is in other men."

Sigga Lára sagði...

Hmmmm. Sé fram á ritun leiðbeininga um hvernig á að láta kaldhæðni og skítaglott skila sér í rituðu máli. Gæti verið trikkí, en ég held lausnin gæti falist í grófgerðara orðalagi en menn brúka hvursdax... þetta er á vangaveltnastigi, en ég á eftir að pæla í þessu.

Annars finnst mér Óbermið vera einstaklega skemmtilegt auknefni á Sævar. Það er eitthvað svo... rangt.

Nafnlaus sagði...

Æi takk!