Var að klára að pakka. Við Freigátan fljúgum austur á morgun. Hún ætlar að eyða helginni í að skemmta ömmu sinni á meðan ég vinn í leikritinu mínum með Leikfélagi Fljótsdalshéraðs. Hvernig ég ætla að fara að því að koma sjálfri mér henni og tölvunni í heilu lagi um borð í flugvél og pína síðan Freigátuna til að vera kjura í klukkutíma, er... tja, best að brenna þann kross þegar ég kem að honum.
Fasteignadagbókin
Eftir miklu umhugsun um ónýtu íbúðina var eiginlega of margt að henni til að huxa meira um hana. Hún var:
- Ónýt
- Ekki nógu skemmtileg til að mig langaði að "gera hana að minni"
- Eiginlega of langt frá skólanum hans Róberts
- Og svo fóru að berast fregnir af allskonar glæpónum sem ku vera búsettir í grenndinni
Semsagt, hún er úti í kuldanum.
En núna áðan fengum við skyndihugdettu um að skoða eina í nágrenni okkar sjálfra. Sú íbúð er reyndar örlítið minni, en betur staðsett á alla kanta, ekkert sérstaklega ótnýt, nema hvað það er dáldið búið að ganga parketið til, og eiginlega bara... með öllu sem okkur langar í, held ég. Sennilega gerum við tilboð á morgun. Sennilega bara nokkuð gott, meiraðsegja. Við erum bara nokkuð skotin í henni þessari.
Þunglyndisdagbókin
Í morgun gerðist hið ótrúlega ómögulega. Ég vaknaði og var ekki vitundarögn syfjuð. Dagurinn var eins og aðrir bara, en heimurinn fórst aldrei. Ekki þegar ég fattaði að ég hafði klúðrað geðveikt illa eða neitt. Og ekki þó það væri mikið að gera og það fór merkilega lítið í stressurnar á mér að ég er að fara að ferðast á morgun með Freigátuna. En það hefði nú verið aldeilis líkt mér að gera allavega smá heimsenda úr því. En innra með mér var ég alveg pollróleg og ekki baun ómöguleg.
Merkilegt. Þetta er ég búin að vera að gera:
Ég er ekkert búin að vera að taka mark á því þegar ég held að ég sé sybbin. Bara sofa um 8 tíma á nóttunni og ekkert rugl.
Ég er búin að vera að nördast svolítið um þunglyndi og meðferðir við því. Bara svona lesa mér til um einkenni og yfirborðslegt um meðferðir. Ekkert heví, en ég er ekki frá því að það hafi virkað aðeins að lesa aftur og aftur hver einkennin eru... Ekki það að maður viti það svosem ekki en... einhvernveginn finnst mér það hafa síast betur inn.
Og svo er ég búin að vera að (og nú kemur klisjan) huxa jákvætt. Eiginlega bara leiðrétta sjálfa mig þegar mér finnst allt ómögulegt og sérstaklega ég. Þá hef ég vandað mig að hugsa um að það sé til dæmis órökrétt að mér finnist heimurinn vera að farast af því að ég gleymdi að kaupa lýsisperlur eða allt sé ómögulegt, og sérstaklega ég, af því að það sé ekki gjörsamlega allt á hreinu í lífi mínu.
Um daginn, reyndar fyrir akkúrat viku síðan, var ég ógurlega þreytt eitthvað eitt kvöldið. Mikið að gera daginn eftir og mér fannst þetta allt eitthvað svo ógurlega erfitt. Þá ákvað ég að reyna að hlakka til alls sem ég þyrfti að gera daginn eftir. Gerði þá stórmerkilegu uppgötvun að allt sem ég var að fara að gera daginn eftir fannst mér skemmtilegt. Ég hékk í þessari hálfuppgerðu tilhlökkun alla nóttina og daginn eftir og skemmst frá því að segja að dagurinn varð hinn skemmtilegast í langan tíma. Síðan er ég búin að vera að minna sjálfa mig á, þegar mér ætlar að fara að finnast eitthvað erfitt, að mér finnst þetta venjulega stórgaman. (Vill til að mestallt sem ég þarf að gera í lífinu þessa dagana er stórgaman og ég hef ekki einu sinni tíma til að sinna öllu sem mér þætti gaman að gera.) En þarna held ég að ég hafi snúið svolítið við. En ég átti alls ekki von á svona mikilli breytingu með einhverju svona... huxi. Hef miklu meiri trú en áður á hugrænu atferlismeðferðinni. Ætla að bögga lækninn minn í viðtalstímanum hans fyrramálið.
19.10.06
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Já það er nefnilega alveg ótrúlega merkilegt hvað er hægt að gera með smá huxi. Ég notaði þetta þegar ég var alveg að fara að æla af leiðindum yfir sparslföturnar, í staðinn fyrir að hugsa "nú þarf ég að sparsla enn einn helv... vegginn" þá var það "en hvað ég hlakka til að fá fínan vegg". Ótrúlegt hvað það breytir miklu. Núna upp á síðkastið ef mér finnst allt óyfirstíganlega erfitt og ómögulegt, þá ákveð ég að hafa áhyggjur af því þegar ég er búin að sofa. Það virkar yfirleitt, ótrúlega hvað áhyggjurnar eru miklu minni daginn eftir.
Þið eruð svo vitrar stelpur. Hjálpar ótrúlega að lesa færslurnar ykkar og kommentin. Ég er nefnilega á svipuðum stað og þú SiggaLára en gengur ágætlega að hanga réttu megin við línuna. Og svo fæ ég að öllum líkindum líka svona hugræna atferlismeðferð og hlakka mikið til að byrja í því.
Skrifa ummæli