18.10.06

Virkni

Ýmislegt að ske. Minni á tónleik Lúðrasveitar Reykjavíkur í kvöld þar sem meðal annars verður flutt verkið "Spaugelsi" eftir hina norskmenntuðu systur mína, Báru Sigurjónsdóttur.

Ég fór á fund í gær og ætla að leikstýra einhverju jólalegu fyrir jóladaxkrá Hugleix sem verður í Þjóðleikhúskjallaranum í byrjun desember. Mér finnst óskaplega gaman að vera farin að undirbúa jólin...

Erum sennilega að fara að skoða íbúð á eftir, þar sem mér virðist ég ætla að fá einu þjónustufrekjunni minni sinnt. Ég vil nefnilega að fasteignasalar sýni mér íbúðir. Ég nenni ómögulega að eiga að standa í því sjálf að hafa samband við eigendur eða leigjendur og heimta að fá að vaða inn á heimili þeirra. Ég vil að fasteignasalar komi allavega tímasetningu á viðburðinn, helst komi sjálfir og sýni þegar eigandinn er ekki heima. Þetta fannst mér líka langbesta tilhögunin þegar ég var sjálf seljandi. Fasteignasalar eiga að vera með allar upplýsingar, hafa góða þjálfun í þessu, og svo erum við líka að borga þeim alveg hreint morðfjár, gangi salan í gegn.

Mér er meinilla við að hringja á fasteignasölu út af íbúð og fá bara símanúmer hjá einhverjum "Guðmundi" úti í bæ. Hvað ef "Guðmundur" er einn af þeim sem virkar alltaf fúll í síma? Hvað ef hann er akkúrat að kúka þegar ég hringi í hann? Nei, þetta finnst mér að fasteignasalinn eigi að gera fyrir mig.

Og nú hringdi ég á fasteignasölu í morgun, konan tók niður nafnið mitt og númerið og hvenær mér myndi henta að skoða, og sagðist síðan ætla að hafa samband við mig. Ég er þegar orðin hrifin af viðkomandi fasteignasölu. (Um leið og ég lagði á mundi ég reyndar að ég hafði gleymt símanum mínum heim... en það er nú önnur saga.)

Þessa dagana er ég að reyna að glíma við þann hluta þunglyndisins sem segir manni að maður sé ómögulegur. Sem og allt sem maður gerir og er. Allt neikvætt um sjálfan mann er tekið mjööög alvarlega á meðan maður álítur hrós vera annað hvort óekta eða tilkomið af fáfræði viðkomandi. Ég huxa að þetta sé það skaðlegasta af kvillanum. Að finnast maður alltaf vera að gera allt illa. Þó maður sé kannski að gera fullt af hlutum hrrrroðalega vel, þá getur maður huxað til þess að maður gleymdi nú reyndar að taka úr þvottavélinni í morgun... og þar með er maður orðinn mislukkaðasti einstaklingur heims. Hreint ekki neitt rökrétt við þessa röksemdafærslu. Meiri geðveikin.

Í dag langar mig að prjóna eitthvað.

4 ummæli:

Ásta sagði...

Ég upplifði fasteignasala sem guðlegar verur sem bjuggu í fasteignasöluturnum sínum og hættu sér aldrei út fyrir hússins dyr. Aldrei sá ég neinn þeirra í eðlilegri birtu.

Nafnlaus sagði...

Ég get nú alveg sagt þér það, elsku tjellingin að bloggið þitt er það skemmtilegasta sem ég hef nokkru sinni lesið. Alltaf.

Nafnlaus sagði...

tek undir með síðasta ræðumanni! þú bloggar dásamlega. prjónaðu bara... einu sinni prjónaði ég kynstrin öll og það voru held ég bestu dagar lífs míns.

Nafnlaus sagði...

prjónaðu bara eins og þú eigir lífið að leysa,- það er eins með prjónara, saumara og hlóðfæraleikara, ég öfunda allt svoleiðis fólk af hæfileikunum! Og bara svona svo það sé birt á prenti, þá finnst mér þú yndisleg, sæt og gáfuð;-) knús í bæinn þinn, litla fallega Gyða fær extra knús