6.11.06

Ammli og sögur

Elsku Rannsóknarskipið mitt varð 34 ára í gær. Ég hélt upp á afmælið hans með því að troða í hann mat í hvert sinn sem ég sá hann. Eldaði meiraðsegja hrygg í gærkvöldi. (Sem var búinn að vera í frystinum í ár, og ég þverneitaði að flytja upp á Ránargötu.)

Annars voru annir um helgina og því lítið gert í flutningsmálum. Rannsóknarskip var að æfa fyrir Þetta mánaðarlega í Þjóðleikhúskjallaranum, en það var frumflutt í gærkveldi. Í þetta sinn segja Hullarar sögur af forfeðrum sínum og bresta annað slagið í fallegan söng. Úr þessu varð óskaplega falleg sýning. Ég mæli algjörlega með þessu. Þetta verður aftur sýnt á fimmtudagskvöldið.

Næst á daxkrá er síðan að reyna að koma einhverri hreyfingu á eitthvað af dóti til flutnings, flytja jafnvel geymsludót og bækur og eitthvað í vikunni, en síðan er ferð heitið til Egilsstaða um næstu helgi hvar öll fjölskyldan ætlar að vera viðstödd frumsýningu á höfundarverki voru sem heitir núna Listin að lifa. Verður mikið um dýrðir og ég ætla að klæðast kínverskum kjól sem Hugga syss ætlar að lána mér. Svo er ég búin að panta klippingu og litun. (Það skemmtilegasta við að skrifa leikrit er að mæta íðilfagur á frumsýningu.)

En það verður ekki mikið skrið á flutningum um helgar á meðan annríkið er svona. Móðir mín er búin að boða komu sína til aðstoðar eftir þarnæstu helgi. Opinber Flutningsdagur hefur verið settur svona umþaðbil 20. nóv. Þá verður allt þetta þunga flutningabílað yfir og tannburstar fluttir. Huxanlega eitthvað keyrt í sorpu í leiðinni.

Svo ætla ég að gera aðventukrans. Allt dauðskipulagt.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til lukku með kallinn. Og skilaðu til hans þökkum fyrir sögustundina í gær.

Bára sagði...

Fyrst þú ert farinn að skipuleggja svona svakalega þá er kannske ekki úr vegi að tilkynna komu mína.
Þann 24. nóvember kem ég til landsins í laaangt jólafrí. Verð líklega í nokkra daga í höfuðborginni áður en ég held austur um heiðar. Mun sennilega falast eftir gistingu.

Gangi ykkur vel að flytja.

Sigga Lára sagði...

Jájá. Þá kem ég einmitt til með að eiga tvær íbúðir svo það verður hægt að gista úti um allt. Kem til með að falast eftir aðstoð við að nálgast píanóið þitt.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með Árna þinn og kysstu hann frá mér á kinnina og Gyðu líka;-)Knús líka á þig og smábátinn Róbert!