9.11.06

Brjál

Það er alltaf allt í haugum. Sérstaklega annríkið. Og húsnæðin.
Núna standa yfir flutningar á heimilinu og það er eins og við mannin mælt, tóm geðbilun á öllum vígstöðvum hellist yfir um leið. Þýðingar sturtast yfir, vinnan mín er að fara að halda úrslitalestra á skrifstofunni á föstudaxeftirmiðdag. (Fer þaðan beint í flugvélina og austur í Egilsstaði með famlíuna á frumsýningu hjá sjálfri mér sem er hjá LF á morgun.) Tryggingamálin okkar eru einmitt núna líka í endurskoðun, með tilheyrandi pappírsflóði og þvagprufum, og eins og þetta væri nú ekki bara slatti þá fékk Rannsóknarskip í bakið í fyrradag og er rétt að byrja að skríða uppúr því að hreyfa sig eins og hálfnírætt gamalmenni. Já, og svo var hjólinu mínu stolið í fyrrinótt. Reyndar var annað skilið eftir í staðin... undarlegt... en löggan ætlar að taka það og ráðlagði mér að skoða tapað-fundið hjá þeim í næstu viku til að gá hvort mitt hefur skotið upp kollinum.

Er annars búin að olíubera gólfið á nýja heimilinu. Og Smábáturinn ræður sér varla fyrir hamingju yfir trampólíninu sem húsfélagið á nýja staðnum á. Heldur ekki yfir því hvað verður miklu styttra í skólann fyrir hann. Freigátan ræður sér ekki yfir hamingju yfir að geta skriðið um allt eftir eigin hentugleikum, í staðinn fyrir að vera römmuð af innan stigamarka. Ég er jafnhamingjusöm yfir sama fyrirhugaða stigaleysi... þó ég hafi örlitlar áhyggjur af spiksöfnun af hreyfingarleysi. Og Rannsóknarskip er hamingjusamur yfir heildarhamingju fjölskyldunnar.
Tóm hamingja, bara.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

til hamingju með leikritið og tutupojpoj- vona að maður fái að berja verkið augum - hvernig ber maður annars með augunum?