Mér finnst við eiga að vera GÓÐ við útlendinga sem vilja búa á Íslandi. Gefa þeim vinnur og allt sem þeir vilja. Við þurfum nefnilega að horfa til framtíðar. Nú benda allar heimsendaspár nefnilega til þess að skerið okkar verði algjörlega óbyggilegt innan fárra alda, annað hvort verði það sokkið í lekann úr heimskautaísnum eða orðið ísilagt af Golfstraumsleysi, og þá kemur sér nú vel að eiga inni hjá ættingjum íslenskra Pólverja og Kínverja.
Heimurinn er að minnka og blandast. Þannig er þetta bara. Eftir fáhundruð ár verður enginn lengur af einu þjóðerni eða kynþætti. Og hvað sem mönnum finnst um það, og hversu mikið sem menn ætla að grisja hver annan í prósessnum, þá er þróunin þannig. Mannkyninu er líka að fjölga og við þurfum að læra að búa þröngt eins og Japanir. Eða fara bara að grisja á milljón. Eins og Ísraelar og arabar. Þannig er það bara.
Mér finnst líka kjánalegt þegar menn ætla að fara að slá um sig með einhverju "þetta er OKKAR land" og "VIÐ erum nú búin að vera hér í einhver 1200 ár" -kjaftæði. Ég veit ekki með restina af þjóðinni, en ég er búin að búa hér í rúmlega 32 og hálft ár. Margir útlendingar hafa búið hér lengur. Og ég bjó ekki einu sinni hérna allan tímann. Bjó í næstum tvö ár Í ÚTLÖNDUM! Misnotaði þar allskonar menntun og þjónustu og ýmis hlunnindi, sjálfsagt á kostnað heimamanna, eins og allir Íslendingar sem læra erlendis gera, og færa svo varninginn heim. Eigum við ekki bara að skammast okkar?
Mér blöskraði svo rasisiminn í "Íslendingnum á götunni" í fréttunum í gær. (Eða var það í fyrradag?) Allavega, ef glæpalýðurinn sem á verktakafyrirtækin er að ráða hæft fólk með reynslu, hvers lenskt sem það er, á skítakaupi, og ef lágmarkstaxtar eru ekki þannig að hægt sé að lifa á þeim, er hvorugt við útlendinga að sakast. Það eru okkar eigin glæpamenn í samningagerð og atvinnurekstri sem standa fyrir því.
Við förum í nám erlendis. Og vinnum þar líka. Þvælumst örugglega helling fyrir þarlendum. En við megum það alveg þannig að þarlendir verða bara að bíta í sig með það. Og við verðum að gera slíkt hið sama. Ef við viljum ekki hafa útlendinga heima hjá okkur, þá verðum við líka að hætta að fara heim til þeirra. Kalla alla á danska og sænska sósíalnum heim! Og það er alveg sama hvað menn "ræða viðbrögð" á Alþingi Íslendinga, það er enginn að fara að snúa þróun mannkyns í þá átt að menn fari bara að vera heima hjá sér og hætti að skoða heiminn og prófa að búa um hann allan.
Mér finnst margir Íslendingar ekki vera að átta sig á breyttum áherslum í "hver er bestur" keppninni. Það hefur verið þannig, í örugglega þúsund ár, að það ljótasta sem hægt er að segja um Íslending er að það sé ekkert hægt að NOTA hann í vinnu. Þeir sem eru að mennta sig um of hafa löngum verið, og eru jafnvel enn, litnir hálfgerðu hornauga. ("Þetta heldur víst að það sé eitthvað.") En nú er svo komið að það mikilvægasta sem menn búa yfir, nokkurs staðar í heiminum, er góð tungumálakunnátta. Og það getur þvælst fyrir mönnum, meira að segja heima hjá sér, að búa ekki yfir svoleiðis. Kannski er eitthvað aðeins hægt að stemma stigu við þessu "vandamáli" með því að hleypa engum inn í landið nema hann hafi fyrst komið við í tungumálaskólanum á Keflavíkurflugvelli og lært íslensku reiprennandi, en ég held það verði bara ekki mjög lengi. Hvort sem mönnum líkar það betur eða ver, þá er enskan orðin esperantó nútímans. Tvennt er í boði. Að læra hana, eða ekki. Velji menn að læra hana ekki (af því að í sínu HEIMA landi á bara að tala EITT tungumál, eins og það sé eitthvað regla), þá þýðir ekkert að sitja og nöldra ofan í kaffibollann sinn við hina tvo sem ekki var heldur boðið í skemmtilega Kínapartíið hjá nýbúanum í næsta húsi.
Heimurinn er að minnka.
Menn þurfa bara að vera til friðs með það.
Eða hætta á að vera bara sjálfir grisjaðir.
Þetta var nú meiri langhundurinn.
8.11.06
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
10 ummæli:
Hjartanlega sammála!
Vel mælt. Ég skil ekki afhverju Íslendingar eru allir sem einn að springa úr útlendingafóbíu þessa dagana.
Þú ert gáfuð stúlka og mælir satt og rétt nú sem oft áður! Verð í útlöndunum á frumsýningardaginn þinn svo ég segi bara tututu og til hamingju með þetta allt saman og knúsaðu liðið sem að þerssu stendur og ég þekki;-)
Ég er aðallega sammála Sigguláru í því að það þurfi að tugta til íslensku glæpamennina sem misnota útlensku verkamennina. En væri ekki ráð að setja undir þann leka áður en skrúfað er frá krananum? Gerður hjá Alþjóðahúsinu sagði í Kastljósinu í gær að innflytjendaráð sem hefði verið sett á laggirnar í fyrra væri með 0 kr. til að vinna með. Mér finnst það of lítið. Íslenskukennsla er of dýr fyrir þá sem flytja hingað. Ég hef unnið með pólskum bílstjóra sem getur ekki lesið götunöfn - hvað gerist ef hann lendir í slysi og getur ekki tjáð sig á íslensku eða ensku?
Ég trúi að „fólkið á götunni“ hafi líka verið að hugsa um útlendingana, kjaramál þeirra og réttindaleysi eins og staðan er.
Ég trúi líka að t.d. vestfirsku útlendingarnir sem eru búnir að vera hér í 20 ár muni fyrstir missa lífsviðurværi sitt þegar þenslan gengur til baka, atvinnuástand versnar og einhverjir fá uppsagnarbréf.
Kommentakerfið er vont við langhunda þannig að ég hætti núna.
Segi bara að lokum að mér finnst Siggalára gáfuð, réttsýn og vel máli farin - en þarna er ég bara ekki alveg sammála þér og ykkur hinum.
Og húrra fyrir því að demókratar gáfu Bush langt nef í gær.
Kveðja,
Berglind Steins
jamm við eigum að vera góð við almennilegt fólk. við þurfum hins vegar ekki að vera góð við glæpamenn eins og litháensku mafíuna og fleiri af því sauðahúsi vegna þess að ríkisstjórnin fór ekki fram á að fólk sýndi fram á hreint sakarvottorð við millilandaflutninga. sem mér finnst sjálfsagt skilyrði og held að spili dálítið stórt hlutverk í þessari umræðu, hér er allt fullt af góðu fólki sem er að vinna störfin sem við erum of snobbuð fyrir, en að sama skapi er orðið heldur mikið um fólk sem starfar á fíkniefnamarkaðnum. og það vil ég ekki hafa hér. persónulega.
Mér finnst nú bara almennt að menn eigi ekki að vera glæpamenn. Mér er alveg sama hverrar þjóðar þeir eru. Þeir eiga að vera í fangelsi. Mér er alveg sama í hvaða landi.
Mér finnst ekkert sérstakt atriði að Íslendingar sjái sjálfir um sína glæpastarfsemi. En verra að markaður sé fyrir hana.
Sem og undirborgaða verkamenn. Mér er líka sama hverrar þjóðar þeir eru. Það á ekki að líðast með neinn. Það er enginn "leki til að setja undir", það þarf að handtaka atvinnurekendur sem verða uppvísir að slíku og sekta þá um meira en þeir hafa grætt. Það er bannað að brjóta lög. Það er búið að bregðast við þessu. Það eru lög í þessu landi. Og vinnulöggjöf. Hún nær yfir alla.
Fólk sem fer erlendis til að vinna án þess að tala neitt tungumál annað en sitt eigið, gerir það á eigin ábyrgð. Við getum ekki komið algjörlega í veg fyrir að fólk sé heimskt.
Gerast menn nú kaþólskari en páfinn. Mér finnst þessi útlendingaumræða í augnablikinu vera nokkuð sambærileg við það að segja að fólk sem er hlynnt getnaðarvörnum / takmörkunum á barneignum / umhugsun á barneignum hljóti með því að teljast barnahatarar.
Ég skil alveg að menn séu að velta þessum málum fyrir sér og vilji ræða þau. Ég held bara, persónulega, að það þýði ekki neitt.
Og gremst mér ef verið er að birgsla mér um einhver "haturs"-nefni einstaklinga sem eru mér ósammála.
Menn mega alveg vera það.
Sigga mín, þetta var nú ekki hugsað svona persónulega á þig. Hatursnefnið var tilraun til að íslenska rasistahugtakið (kynþáttahatur sumsé) sem flýgur hausanna á milli þessa dagana á að mér finnst oft frekar hæpnum grunni.
Það getur vel verið að það þýði ekkert að huga að fólksflutningum, þeir gerist bara hvort sem er. Sömuleiðis mætti segja að það þýði ekkert að huga að umhugsun um barneignir, börnin koma hvort sem er og allir elska þau þá - auðvitað. EN - það ætti að vera sjálfsagt að mega staldra við og vilja íhuga og undirbúa þær breytingar sem í aðsigi eru, jafnvel læra af reynslu annara, án þess að vera rastistakenndur. (og þá á ég við umræðuna í þjóðfélaginu almennt).
Og þessi pistill, og öll skrif í framhaldinu, eru innlegg í þá umræðu. Mér finnst umræður um hvort umræðan eigi að vera til staðar hins vegar tefja umræðuna.
Skrifa ummæli