7.11.06

Hratthratt!

Ég held að hún Hulda hafi verið að minnast á það í kommenti um daginn hvað allt virðist gerast hratt í lífi mínu. Og ekki bara þessa dagana, heldur almennt. Það er alveg rétt. Um daginn sat ég t.d. með fjölskylduna á Pizza Hut og fékk svona óraunveruleikatilfinningu. Ef einhver hefði sagt mér, fyrir svona tveimur árum og tveimur mánuðum síðan, að 2006 myndi ég eiga fjögurra manna fjölskyldu, hefði ég nú bara sagt viðkomandi að fara heim og taka pillurnar sínar.

Mér fannst þetta reyndar mjög fínt þegar ég var yngri. Svona upp að, eða upp fyrir, 25 ára aldur fannst mér ævinlega hraði í lífinu vera af því góða. Núna er ég hins vegar aðeins farin að furða mig. Sennilega hélt ég alltaf að þegar maður væri kominn í þessa aðstöðu, með mann og börn og svona, að þá færi nú eitthvað að hægjast á þessu. Lífið að komast í fastar skorður og lognmolla að færast yfir. En það er nú eitthvað annað. Ég er að fara að flytja í 19. skiptið á ævinni, aukinheldur sem börn stækka með gífurlegum hraða og sjá til þess að hver dagur er nýrri og meira spennandi og hver öðrum ólíkari en allir þeir sem á undan fóru. Núna koma ný verkefni á hverjum degi og tíminn virðist líða hraðar en nokkru sinni fyrr. Freigátan mín verður mannalegri með hverjum deginum, og Smábáturinn er að verða unglingur. Hann hefur þroskast alveg fáránlega mikið á þessu ári sem ég er búin að eiga hann. Þar fyrir utan koma svo leikhúsmálin, en leikfélagið mitt (sem ég hef ekki þurft að hætta í vegna barneigna, því ég á svo góðan mann) er gjörsamlega að tjúllast í brjálaðri starfsemi svo maður veit ekki hvernig maður á að snúa. Og svo er verið að setja mig upp annars staðar.
Það lítur allavega ekki út fyrir að það ætli neitt að hægjast á þessu í bili.

Hins vegar eignaðist ég einn klukkutíma í sólarhringinn í gær. Allavega virka daga. Nú er hann Doktor minn Phil horfinn af öldum ljósvakans og í staðinn komið... "eitthvað"... sem ég nenni alls ekki að horfa á. Allt í einu er tíminn á milli 5 og 6 á daginn bara galopinn fyrir hvað sem er. (Eins og að pakka niður í kassa.) Enda vissi ég ekkert hvað ég átti að gera af mér á þessum tíma í gær.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Pjúff- man eftir nákvæmlega þessari upplifun. Einn daginn þegar ég átti allt í einu fjögurra manna fjölskyldu, bíl og íbúð og mann og nýja vinnu og og og og ... þá var nærri liðið yfir mig þegar ég var að tannbursta mig. Síðan hefur lífið einmitt lítið gert annað en að herða á sér, fjölskyldan orðin sjö manna, bílarnir tveir, íbúðin endurnýjuð en blessunarlega þá held ég manninum og vinnunni ennþá. Þó eignast ég alltaf nokkrar mínútur í sólarhringnum öðru hvoru. Nú eru ungarnir mínir til dæmis að læra sjálfir að hella í glösin sín, þar græði ég nokkur andartök.