Ofurlítil Duggan hefur huxað sér að verða Vatsberi. Eins og Freigátan varð, þrátt fyrir upprunaleg áform um að verða Steingeit. Ef Ofurlítil Duggan verður líka lengur en 10 dögum framyfir að bakast, verður hún fiskur, eins og Hugga móða.
Eins og Freigátan fæðist hún líklega nálægt kínverskum áramótum. (Freigátan fæddist á kínverskum gamlársdag á ári tréhanans. Þrátt fyrir eftirgrennslanir hefur mér ekki tekist að finna hvaða hjátrýr eru í gangi yfir svoleiðis. En ég er nokkuð viss um að þær eru til.) Ofurlítil Duggan fæðist, samkvæmt ásettu, á þriðja degi árs jarðarrottunnar. Þar með bætist hún í hóp rottanna tveggja sem fyrir eru í fjölskyldunni, Rannsóknarskips og Smábáts. (Þar með er komin skýring á hví okkur fjölgar svona. Við erum rottufjölskylda.) Þó þarf hún ekki að vera nema þremur dögum á undan áætlun til að verða eldsvín. Og þau hef ég nú bara sjaldan rekist á í lífinu.
Með því að gjóa augunum á samsetningu þessara stjörnumerkja sýnist mér Ofurlítil Duggan ætla að verða efni í mikinn artífart. Þó á jarðareðlið í rottumerkinu eftir að jarðbinda nokkuð vatsberaloftið eða fiskavatnið sem ætti að verða áberandi. Ýmislegt bendir til félagslyndis, en þó ekki sérstaklega mikils hávaða. Enda væri það nú frekar undarlegt, með barn af ætt og kyni Brekku í Eyjafjarðarsveit. (Ég á reyndar alltaf nokkuð erfitt með að kaupa þetta með innhverfa, hljóðláta og íhuguluna eðli sem ku eiga að vera einkenni fiskamerkisins... Kannski hefur hreinlega orðið einhver misskilningur um fæðingardag Huggu syss.)
Þá er búið að koma fyrstu spádómum um það á blað. Eftir hádegið er fyrsta mæðraskoðun, hvar ég vonast til að fá upplýsingar um hvað Grindhvalasundið hefur huxað sér að vera lengi í sumarfríi.
Og Hulda er fyrst í veðbankann. Hún spáir 8. feb. Betur að satt væri. Ég ætla að bíða og gá hvort spánornin Ringsted frá Bolungarvík spær einhverju um málið. Hún hefur þann leiða ávana að spá illum og seinum fæðingum og hafa rétt fyrir sér.
Já, og tekið skal fram, kvillarnir í jólalaginu er nú kannski ekki allir alveg sannir og/eða rétt tímasettir. Ég hafði t.d. morgunógleði á kvöldin. En hún er búin núna og ekkert að plaga mig nema ég er komin með helv... öflugan grindverk. En nú er maður í þjálfun. Ræktin er enn stunduð en ekki með alveg jafn miklu trukki á stöku stað. Pantaður hefur verið tími í sjúkraþjálfun og beðið með nokkurri óþreyju eftir að grindhvalasund apist úr sumarfríi.
Allt undir kontróli.
26.7.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Pant fá nokkrar myndir af freigátu í fríi eða heyskap
Skrifa ummæli