18.7.07

Smáfrétt og orðskýringar fyrir venjulegt fólk

Hún Ágústa Skúla varð fertug í gær. Ekki fékk hún nú að gera það í friði, heldur mættu um 40 manns heim til Hrefnu með heljarinnar pottlökk og svo var afmælissöngurinn veinaður á vesalings gömlu konuna þegar hún haltraði grunlaus inn um garðshliðið. Skemmtilegur hittingur sem varð svolítið eins og krossóver á milli Bandalaxþinx og Skóla. Ekki var nú leiðinlegt að sjá aðeins framan í Mementógengið áður en það leggur upp í langferðina til Suður-Kóreu.

Þessi málsgrein gæti líklega eins verið á rússnesku, fyrir marga samborgara.
Höfum orðskýringar:
Ágústa Skúla: Óskaplega ástsæll leikstjóri sem hefur m.a. unnið með gífurlega stórum hluta áhugaleikara á Íslandi á síðustu árum við uppsetningar leikrita auk þess sem hún hefur haldið fjölda námskeiða um allt land.
Hrefna (Friðriksdóttir): Leikskáld og Hugleikari og vinkona Ágústu sem hefur m.a. skrifað og unnið tvær sýningar með Ágústu, síðast leikritið Bingó sem Hugleikur og Leikfélag Kópavogs sýndu síðastliðið vor.
Bandalaxþing: Aðalfundir Bandalax íslenskra leikfélaga, haldið einu sinni á ári. Þar hittast áhugaleikarar frá öllu Íslandi, ræða lífsins gögn og nauðsynjar, kjósa yfir sig stjórnir og faðmast ógurlega.
Skólinn: Leiklistarskóli Bandalax íslenskra leikfélaga, var haldinn í 11. skipti í ár. Stendur í 10 daga í júní, hefur hingað til verið haldinn á Húsabakka í Svarfaðardal. 3-4 námskeið í leiklist, leikstjórn og öðru leikhústengdu haldin samhliða. Um 50 manns koma saman, gista í pínkulitlum herbergjum með táfýlu a nóttunni og læra leiklistartengt á daginn. Og faðmast ógurlega.
Mementógengið til Suður-Kóreu: Memento mori er leikrit sem áðurnefnd Hrefna skrifaði og áðurnefnd Ágústa leikstýrði árið 2004. Uppsetning þessi tókst með eindæmum vel og hóf stykkið sigurför sína um heiminn á Leiklistarhátíð á Akureyri 2005, færði síðan aðeins út kvíarnar í fyrra og fór til Færeyja, og nú ætla menn endanlega að missa sig og fara á alþjóðlega leiklistarhátíð IATA (Alheimssambands áhugaleikfélaga) í Suður-Kóreu. Þau fara í næstu viku og eru búin að lofa að vera dugleg að skrifa dagbók á alnetinu, sem ég mun linka á.

Og þá vita það allir.

1 ummæli:

Siggadis sagði...

Mikið ósaplega var gaman að koma Ágústu svona skemmtilega á óvart - væmnisstuðullinn var í botni enda ekki á hverjum degi sem maður hittir svona margt skemmtilegt fólk og veðurguðurnir með okkur í liði og allt!