28.8.07

Dagur 2.

Í dag var annar dagur aðlögunar Freigátu að leikskólanum. Við mættum um níuleytið og svo var Móðurskipinu uppálagt að láta sig hverfa í hálftíma. Hann brúkaði ég til að láta athuga barnið í sjálfri mér. Ofurlítil Duggan framleiddi hraustlegan hjartslátt og sýndi þannig fram á að hún væri á sínum stað. Sem var eins gott. Það var eina vísbendingin. Allur blóðbúskapur Móðurskips er algjörlega laus við hverslax skorti, ekki hefur bæst eitt gramm á þyngdina síðan í síðustu skoðun og blóðþrýstingurinn 100 yfor 60 þykir bara fínt á góðum degi og fáheyrt á fimmta mánuði meðgöngu. Svo allt er í ljóma.

Freigátan lét sér fátt um finnast, bæði þegar ég kvaddi og fór og kom aftur. Þegar við komum í leikskólann hljóp hún á undan mér inn á deild um leið og hún var komin úr útifötunum og var þar hrókur alls fagnaðar. Svo var hún líka hin auðsveipasta þegar átti að fara heim og er nú búin að borða hálfan heiminn og svo erum við að fara að leggja okkur. Á morgun verðum við í hádegismat á leikskólanum og allt!

Og, for something completely different, ég þarf að gá hvort prentari heimilisins vill tala við Míka. Sem mér er reyndar stórlega til efs. Og þá þarf ég að kaupa mér makkaprentara. Svo þarf víst að taka loka trukk í leikritinu. Kannski maður helli sér uppá kaffi í staðinn fyrir að sofna með Freigátunni, til að nota tímann áður en Smábátur og félagar ryðjast inn eins og nokkrir fellibyljir.

Sælan að vera (hús)móðir.

Engin ummæli: