Ég vorkenndi Freigátunni óstjórnlega mikið á miðvikudaginn. Og í gærkvöldi vorkenndi ég henni ennþá meira, eftirá. Þessi flensa er Reglulegt Óbermi. Í gærkvöldi fann ég til í hálsinum, öllum beinunum og í hvert sinn sem ég hnerraði flugu horflykki á stærð við hausinn á mér um loft og veggi. Ojbara. Mér var skapi næst að gera eins og dóttir mín og grenja í einn sólarhring og gubba svo úr óhamingju. Það er langt síðan flensa hefur haldið fyrir mér vöku.
En það var þó nokkuð hughreystandi að þessi flensa er ekki lengi að ganga yfir. Ég er strax öll að skríða saman og Freigátan er í dag hita og horlausm að mestu. Sem er ágætt. Hún er nefnilega svo pjöttuð að hún lætur snýta sér stanslaust. Hún verður aldrei eitt af börnunum sem getur leikið sér heilan dag með hor í öllum regnbogans litum niður á höku. Á degi tvö var henni reyndar orðið of illt í nefinu til að það mætti snýta neitt. Og það var einmitt daginn sem horið var hvað grænast og fór einstaklega illa við sófasettið, svo af því urðu nokkur áflog. Þegar nokkuð var liðið á daginn ákvað hún að koma mér í skilning um hvað vandamálið væri. Hún tók um nefið á mér, setti síðan hendurnar fyrir sitt nef og sagði: Æ, æ! Semsagt: Mamma þetta er vont! Í gær var síðan horið á hröðu undanhaldi svo nú er hún með andlitsbómul og þerrar nefið á sér sjálf, með einkar hefðarlegum tilburðum. Í tíma og ótíma.
En þetta var sem sagt bara eins og að lenda fyrir meðalvörubíl og vonandi sleppur karlþjóð heimilisins við þetta. Smábátur er að skemmta ömmu sinni um helgina, og hefur þar að auki verið duglegur að halda sig frá horvellinum svo ég vona að hann sleppi. Rannsóknarskip er duglegur að passa Freigátuna í dag og ætlar með hana út í bæ að horfa á fótbolta svo Móðurskipið geti jafnað sig.
Allt á uppleið.
Best að fara að þýða hommamynd.
1.9.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli