Freigátan virðist ekki ætla að vera lengi að þessu. Eftir að hafa reyndar verið dugleg að vekja okkur í nótt, stundum með allt að 40 stiga hita, er hún orðin næstum hitalaus og er að huxa um að sofa í allan dag. Sem er alveg kærkomið af minni hálfu. Rannsóknarskip er að reyna að hafa stjórn á áttundubekkingum í Hagaskóla með augnlokin á hælunum, en það getur nú ekki verið gaman. En nú virðist þetta allt vera á leið til bötnunar og ef svo heldur sem horfir förum við og höldum aðlögun í leixkólanum áfram á morgun.
Amma-Freigáta kom í heimsókn í hádeginu, í leiðinni á fund. Svo ætla ég að reyna að ná í Huggu móðu og gá hvort hún gæti mögulega passað fyrir mig svo ég komist í grindhvalasund á morgun. Og talandi um það, ein úr síðasta bumbusundhópi er ein þeirra fjölmörgu sem ætlar að eignast barn um svipað leyti og ég og ætlar að vera aftur samfó í sundinu. Skenntlegt. Annars fer ég að hafa áhyggjur af því að það verði galið að gera á fæðingardeildinni í febrúar og mars og maður þurfi kannski bara að fæða frammi á gangi eða úti á bílastæði með aðstoð tælenskumælandi sjúkraliða.
Og eitt leikritunarvandamál. Nú er laumuleikritið allt að verða nokkurn veginn eins tilbúið og það verður án þess að ég láti lesa það fyrir mig. Og forritið Celtx er alveg að rúla. Fyrir utan eitt. Þegar ég ætla að komast að því hvað ferlíkið er langt þarf ég að velja eitthvað sem heitir "enable paging". Þegar ég geri það þá gerist nokkuð undarlegt. Á ákveðnum stað í verkinu fer prógrammsgerpið að búa til endalaust margar auðar blaðsíður. Þær hafa komist upp í fimmtánhundruð og eitthvað áður en ég stoppa dæmið. Ég er búin að prófa að eyða staðnum, blaðisíðunni, atriðinu, en allt kemur fyrir ekki. Celtx uppástendur að einmitt þarna skuli vera takmarkalaust margar auðar blaðsíður. Og á meðan það lætur þannig veit ég ekki baun hvort ég er með í höndunum fjögurra tíma maraþonlanghund eða einþáttung. Geri mér gjörsamlega enga grein fyrir því. Og er orðin frekar forvitin.
Þannig að, í stað þess að leggja mig núna ætla ég að prófa að dánlóda forritinu í tölvu Rannsóknarskips og senda sjálfri mér ritið og gá hvað gerist. En þetta er allavega í fyrsta sinn sem ég skrifa yfir fimmtánhundruð blaðsíðna leikrit!
30.8.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Dagskrá föstudags:
Fundir: 9:45,10:45,11:50,14:30, 15:30. Hugsa að þetta skarist nú eitthvað við sundið, er það ekki?
Þetta er nú annars furðulegur tími til sunds, um miðjan dag. Eru ófrískar konur almennt ekki í vinnu, eða fá þær bara frí til að fara í sund um eftirmiddaginn?
Ófrískar konur með grindargliðnun eru nú fæstar vinnufærar yfirhöfuð. En það eru líka hádegistímar og kvöldtímar fyrir þær sem vinna eðlilega vinnu. Ég bara þarf ekki að vera í þeim.
Eg held ad heimavinnandi olettar husmaedur skrifi fra ser vitid medan bornin æla og eiginmadurinn vinnur utan heimilis, eiginlega an tess ad vita tad sjalfar. 1500 bls. vertu ekkert hissa. Tu hefdir att ad sja alla handavinnuna sem eg bjo til medan min born voru ny og innanbords.
Gangi þér með þetta allt saman, gubbið og sundið og leikritið ;) Er þess fullviss að allt fer vel að lokum :) bið að heilsa liðinu.
Gott að henni er að heilsast betur og vonandi eruð þið í leikskólanum að aðlagast á fullu :-)
Skrifa ummæli