Í öllu hafaríinu með franskættaða tölvukvikindið var ég alveg steinbúin að gleyma því sem ég átti að fá í kaupbæti. Ég fékk nebblega svona bleðil úti á götu í Montpellier sem á stóð að gegn framvísun hans gæti ég fengið ipod shuffle á eina evru, ef svo ólíklega vildi til að ég keypti mér fartölvu í búðinni sem ég var einmitt að fara að kaupa mér fartölvu í. Þegar ég verslaði síðan gripinn voru ipoddarnir búnir í augnablikinu (týpískt) og afgreiðslumaðurinn lofaði að senda hann á eftir mér til Íslands, í næstu viku (og ég huxaði...jájá. Þegar svín fljúga).
En svín hafa flogið. Eða svo gott sem. Nú er ég komin með bréf frá tollgæslu Póstsins þess efnis að ég eigi hjá þeim dularfullan, og oggolítinn, pakka frá útlöndum. Mig grunar að þarna sé poddurinn kominn. Algjörlega þvert á mínar væntingar, en þó samkvæmt franskri stundvísi. Núna er einmitt komin vikan á eftir júnílokum, samkvæmt henni. Og ég er búin að finna kvittunina sem á stendur að fyrirbærið hafi kostað nákvæmlega 0,84 evrur. Spurning hverju þeir smyrja á hann. Ég hef ekki kynnt mér verð á shufflurum, en ég veit að þeir eru algjörlega úreldir síðan nanó kom.
Það fyndna er að mig hefur aldrei langað í ipod. En ætla að gá hvort ég nenni að nota hann í ræktinni, ellegar gefa hann Rannsóknarskipi. Hann getur þá hlustað á hann í tímum þegar hann nennir ekki lengur að hlusta á unglinginn.
28.8.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli