26.9.07

Jahér

Nú tók kennarinn minn í Hagnýta Rannsóknarverkefninu þá óvenjulegu ákvörðun að taka pásu á lögbundnum pásutíma skv. stundarskrá. Eins og við manninn mælt að niðri á kaffistofu var hálfur heimurinn og ég á kjaftatörn við alla. Ég hitti líklega fleiri sem ég þekkti heldur en alla mína háskólagöngu fram til þessa, samanlagt.

Þess vegna verður bloggræpan eitthvað smærri en á venjulegum miðvikudegi. Spilar líka inní að ég fer líklegast heim í hádeginu og kl. 13.00 er mæting hjá öllum í Menning og fræði í útvarpi uppi í Útvarpi, þar sem á að leiða okkur í öll sannindi um gagnasafn ríkisútvarpsins. Veeerí spennandi, en ég huxa að tölvan fái ekki að koma með.

Eftir þá heimsókn vend ég líklegast kvæði mínu í kross, sæki Freigátuna og skrópa svo í Fræðilegu skrifin til þess að geta klárað heimaverkefnið í þeim. (Frekar leiðinlegt, þetta eru að verða hinir skemmtilegustu tímar hjá honum Höskuldi málvísindamanni.)

---

Sjitt. Og ég fer alveg að þurfa að éta ofan í mig því sem ég var að hreyta útí eldgamla bókmenntasögukennarann minn. Það er ekki hægt að kenna bókmenntasögu.

Búin að vera í löngum og flóknum umræðum og það eina sem ég veit núna er að það er ekki hægt að skoða neina sögu nema eftirá og frá sjónarhorni nútímamannsins. Þar með er öll söguskoðun orðin lituð af kenningum nútímans, og öllum kenningum fortíðar sem leiddu til hennar, og þar með ekkert að marka.

Ég er alveg að missa sjónar á tilgangi lífsins.

---

Á útleiðinn mætti ég hinum verðandi séra Oddi. Sá var í lopapeysu að hætti guðfræðinema með stóreflis Biflíu í handarkrikanum. Ræddi ég stuttlega við hann og Lubba Klettaskáld um andleg málefni.

Þegar ég settist inn í bílinn tók hinn sami Oddur á móti mér með söng:
"Ef ég geri nokkuð geri ég það ekki vel..." og svo framvegis.
Það fannst mér nú fyndin tilviljun og raulaði með: "Drekkum einn, drekkum tvo..." og svo framvegis.
Ekki lét hann þar við sitja, heldur náði að byrja aftur á diskinum ("Við erum á leið til andskotans...") og fara nokkuð inn í lagið Bjór meiri bjór, ("Bara andskotans nógu oft...") áður en ég komst heim.

Ekki laust við að myndin af séra Oddi með Biflíuna í handarkrikanum hafi afhelgast nokkuð á heimleiðinni.

Engin ummæli: