Ég er helst á því að þessa dagana liggi ég mjög vel við heilaþvotti. ég veit ekki hvort um er að kenna (eða þakka) óléttu, daglegri heilaítroðslu, hori, eða hvað. En fátt er nú skemmtilegra en að skipta um skoðanir. Svo ekki sé minnst á lífsviðhorf.
Um daginn las ég grein um byltingarkenndar hugmyndir um form á skjátextum. Þessa grein ætla ég að vinna með í þýðingafræði. Fyrri hlutann af henni var ég alveg brjáluð. Tautaði "tuh" og "þvuh" fyrir munni mér og "veitekkertumhvaðhanneraðtala". Var ég óneitanlega frekar fúl yfir því að þarna væri verið að hnýta ú viðteknar reglur kúnstarinnar í skjátextun, sem ég hef nú eytt nokkrum árum í að tileinka mér sem fullkomlegast. En svo fóru að renna á mig nokkrar grímur. Undir lokin var ég búin að komast að því að hugmyndir þessa manns, þó framúrstefnulegar væru, í framtíð skjátextunar væru í það minnsta skemmtilegri en það sem gert er nú. Og honum tókst bara alveg að færa sæmilegustu rök fyrir því að þær væru síst ógáfulegri. Svo nú er ég eiginlega bara farin að hlakka til að hafa textann um allan skjá, stundum litaðan eftir því hver er að tala, stundum með þýðingalegum skýringum til hliðanna, og rauðan ef er hávaði. Jah, hví ekki?
Svo er hann Gotti kennari líka kominn á góða leið með að heilaþvo úr mér þjóðernisstefnuna. Ég hafði nefnilega ekki græna glóru um að þetta með að sortera fílk eftir löndum og þjóðtungum væri eitthvað sem var "fundið uppá". Og það meira að segja fyrir ekkert löngu síðan. Þetta með menningararfinn og hreintungustefnuna og land og þjóð og allt, er orðið eitthvað svo inngróið í mann að maður tekur ekki einu sinni eftir því. Var í skólanum á miðvikudaginn að ræða grein um þessa flokkun bókmennta eftir löndum og þjóðtungum, eða ekki, og er á góðri leið með að verða enn meiri óþjóðalýður en ég var. (Og það orð hefur nú heldur betur öðlast nýja merkingu.) Hef horfst í augu við þjóðernishyggjuna í sjálfri mér, og líður eiginlega eins og hálfgerðum nasista. Ég huxa að hann Gotti hafi þarna hrundið af stað ógurlegri byltingu í hugskoti voru, sem gvuðmávita í hvuslax þjóðleysi endar.
Jæja. ætli sé ekki best að fara að afhára lappirnar, fyrst svo undarlega vill til að maður kemst í bumbusund í dag!
Að lokum, óstjórnlega sæt mynd af okkur Freigátu síðan í fyrra, í tilefni þess að ég er í tölvu Rannsóknarskips og var að skoða myndirnar þar.
28.9.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ohhh... ógýllega sætar :-) alveg eins pjeysjur...
Æ, alveg ótrúlega sætar. Í samstæðum fötum.
Skrifa ummæli