5.9.07

Sveiflur

Fyrsti "heili" skóladagurinn gengur í bylgjum á milli alsælu og alheimspirru.

Aðalpirrið er að vera hálflasin og hóstandi eins og fáviti í fyrsta tímanum af öllu.

Alsælan felst fyrst og fremst í því hvað allt sem ég er að fara að læra er yfirmáta spennandi og "hands on". Í dag er ég búin að komast að því að ég er að fara að ritstýra yfirlitsriti um bókmenntasögu í 14 manna hópi og gera tvo útvarpsþætti alveg sjálf! Ekki leiðinlegt.

Pirrið er nú samt ýmislegt. Vegna veikingatruflananna er ég ekki enn búin að sækja aðgangsorðið mitt í "ugluna" en það er það bráðnauðsynlegasta sem maður þarf að hafa. Núna nær líka röðin í Nemendaskrá hálfa leið upp í Breiðholt þegar maður gáir þangað, svo ég hef aldrei haft tíma til að hanga þar nógu lengi til að komast að. Og á meðan liggur heimavinnan fyrir næstu viku í risastórum haugum inni á uglunni og úldnar!

Er samt haldin ákveðinni alsælu yfir tilvist Nemendaskrár, þar sem adminstrasjón martröðin í Frakklandi er mér enn í mjög fersku minni. Hér er þó allavega bara ein röð við eina skrifstofu sem maður veit að getur leyst öll manns vandamál. Í Paul Valery voru nokkrar byggingar af skrifstofum, raðir fyrir utan þær allar, og enginn vissi hvað nein önnur gerði eða hvað hún ætti að gera við útlendinga.
Síðan elska ég nemendaskrá, þó ég þurfi að koma á morgun og bíða í röðinni allan tímann sem ég mögulega má skilja Freigátuna eftir á leikskólanum.

Ég hélt ég væri að fara í tíma mest á kunnugum slóðum. En, nei, ég er búin að kanna ýmsar kjallaraholur og hanabjálka sem ég vissi ekki að væru til. Eftir að hafa fundið fjarkennslustofuna sem er í dýflissunni á Odda og sit núna uppi undir rjáfri í Árnagarði, sé ég að það er líklega góð ástæða fyrir því að það er ekki hægt að komast hálft hænufet um svæðið fyrir f*** byggingaframkvæmdum.

Þess vegna var það að þegar ég ætlaði að skjótast í hálftíma pásu á milli tíma og gá upp á von og óvon hvernig röðinni liði, þá þurfti ég að fara þvílíka fjallabaxleið til að komast frá Odda í Aðalbygginguna að þegar þangað var komið var ekki tími nema til að berjast til baka, fjallabaxleið, í Árnagarð. Í rigningunni. Með kvefið. (Bætir nokkuð úr skák að Árnagarður hefur öðlast nýjan og heimilislegan ljóma í huga mér. Bara út af nafninu.)

Hingað komin er ég síðan bara að skrifa þessa ógurlegu færslu. Vona að Alheimurinn gefi að ég þurfi ekki oft að hlaupa út til í hóstakasti úr þessum tíma, þar sem ég hef tryggt mér sæti aftast úti í horni. Hélt ég yrði ein af þessum sem sætu alltaf fremst og væru áhugasamastar. En hér er allt fullt af kellingum sem flestar eru mun meira miðaldra en ég. Ég er því að upplifa mig sem unga rebelinn sem situr úti í horni og þekkir engann. Í næstu viku mæti ég í goth-gallanum.

Jæja, nú er ég að fara að læra að ritstýra fræðilegum skrifum í tætlur!

PS: Athugasemd í pásu: Þetta verður kúrsinn sem drepur hrossið*. Og mikið eru nú margir leiðinlegir í kýrhausnum.

*Einhvern tíma setti ég fram kenningu um að góð bókmenntafræði væri fyrst og fremst þeim eiginleikum búin að hún væri svo leiðinleg að hún gæti drepið hest. Þessi kenning hefur ekki enn verið hrakin. Og því síður sönnuð.

PPS: Fyrstu tímar í öllu eru búnir. Í tveimur kúrsum er búið að hóta gífurlegu vinnuálagi og lofa að ekki munu allir "halda út". Í hinum tveimur var engu hótað, í svo mörgum orðum, en af vinuplani er ljóst að vinnuálag verður heldur meira en í hinum. (Öðruvísi minnir mig að mér hafi nú áður brugðið, ef ég man rétt.) Og auk þessara mögnuðu miðvikudaga í öllu, þá verða líka laugardagar nokkuð umsetnir fram að áramótum. Og ég hef ekki grun um hvernig ég á að þykjast komast yfir heimanám vikunnar ásam samlestrum hjá Hugleik og aðlöguninni á leixkólann.
Jeij! Þetta er nú kunnugleg og spennandi tilfinning. Verst að í gamla daga hefði maður brugðist við svipaðri aðstöðu með mögnuðu fylleríi, fimmtudag til sunnudax... Það þarf eitthvað að aðlaga skipulagið að óléttum og fjölskyldulífi.
Með aldrinum hefur mér líka græðst nokkuð merkilegt. Metnaður.
Ég hef huxað mér að taka þetta alltsaman í nefið og fá tíu í öllu! Jafnvel ellefu!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svei mér ef ég þarf ekki bara líka að fara að setjast á skólabekk! Ég fékk spennukikk við lesturinn - Þú massar þetta! Góða skemmtun og gangi þér vel, kveðjur - María

Gummi Erlings sagði...

Það er eitthvað spúkí við þetta fljótandi fóstur vinstra megin á síðunni.