Aldrei framar skal ég vanmeta að vera heil heilsu. Heldur skal ég, næst þegar ég vakna þannig, stíga heilbrigðisballett um alla íbúð og syngja hástöfum lofsöng til heilsunnar yfir hafragrautarpottinum. Aldrei eyða mínútu í leti og hang þegar ég verð hausverkslaus eða láta mér horlausri verk úr hendi. Þetta er nefnilega farið að verða ansi þreytandi. Okkur Rannsóknarskipi gengur ekkert að verða hitalaus. Heimilið myglar og við erum bæði farin að fá martraðir yfir öllu sem við erum að dragast aftur úr í skólunum okkar.
Það bjargar okkur frá innrás barnaverndarnefndar að skóli og leikskóli hafa séð um Smábát og Freigátu og nú er sá fyrrnefndi floginn norður yfir heiðar til að vera um helgina. Vonandi text okkur að hafa þetta úr okkur um helgina.
Freigátan var nú eitthvað stúrin á leikskólanum í dag og hefur ekki verið neitt sérstaklega hress. Vaknaði líka klukkan 6 og svona. En mér sýnast augntennur að ofan vera að brjótast niður og þykir líklegt að þær séu sökudólgarnir. Í næstu viku verður hún síðan orðin leikskólastelpa allan daginn, og Móðurskipið vonandi búið að fá heilsu í meðgöngusundið aftur.
Og ég fékk aðganginn í Ugluna áðan. Og heimavinna vikunnar er nú alveg... eiginlega hreint alveg skemmtileg. Velja greinar og greina þær. Fyrir miðvikudag. (Langar í allar í heiminum og er með valkvíða. En er helst að huxa um að grafa eina upp úr einhverjum gömlum Glettingi og svo aðra einhverja meira fræði.) Velja útvarpsþátt til að greina. (Langar í næstum allt á rás 1 og er með valkvíða.) Velja innganga í bókmenntasögubókinni til að rannsaka og "ritstýra" (og langar í næstum allt sem er í boði, of course, en leikritararnir koma vitaskuld mjög sterkir inn.) Og huxanlega velja þýðingafræðgrein til að þýða í þýðingafræði. (Þarf kannski ekki að taka það fram að mig langar í mjöööög margar... en veit ekki ennþá hvernig á að haga vinnu okkar "ritstjóra" í þessum kúrsi, svo kannski þýðum við ekkert.)
Ein nýbreytni hefur gripið um sig síðan ég var í skóla síðast. Nú þarf maður ekki lengur að vera að slást við prentara og gera sér aukaferðir upp í háskóla í tíma og ótíma til að skila verkefnum. Maður setur þau ýmist á einhverja þartilgerða spjallþræði í Ugglunni, eða sendir í meili. Mest hægt að gera úr sófanum, bara.
Og svo er að lesa tvö örskömm leikrit fyrir námskeiðið í leikstjórn sem ég er að fara í og hefst á mánudag.
Og taka frí frá því til að skreppa í Hugleik og hlusta á nokkur nýbökuð og ilmandi leikrit eftir ýmsa, m.a. Benedikt Gröndal, um helgina.
Þetta er alltsaman ákaflega spennandi.
Ef fjárans horið vildi nú bara hypja sig!
7.9.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli