23.10.07

Drepsóttarfréttir

Freigátan kom nú öllum á óvart. (Ja, öllum sem voru viðstaddir og með meðvitund. Þ.e.a.s. mér.) Svaf til níu í morgun (sem er tveimur tímum lengur en venjulega) var hitalaus og gúllaði í sig tveimur hrokuðum diskum af hafragraut, næstum án þess að líta upp eða anda. Hún er nú samt hálf dösuð, óvenjukjur og ennþá með smá útbrot á mallanum og í hárinu. Ég fer nú samt að vélfengja sjúkdómsgreiningu mína um mislingabróður þar sem Rannsóknarskip virðist vera með það sama. En hann er vel yfir þriggja ára aldri svo það passar eiginlega ekki.

Dularfulla drepsóttin virðist allavega ætla að vera fljót í förum, ef Freigátan heldur svona áfram. Ég er enn að vona að hún fari framhjá okkur Smábáti.

Rannsóknarskip liggur hins vegar jafnmeðvitundarlaus og Freigátan var í fyrradag. Það merkilega er að þegar hún raknaði úr rotinu var hún búin að taka einhvern máltökukipp og segir núna allskonar sem hún kunni ekki fyrir.
Það verður því spennandi að sjá hvað Rannsóknarskip lærir í máltökukómanu. Kannski kínversku?

Engin ummæli: