24.10.07

Langavitleysa miðvikudaxins

Skildi Rannsóknarskip og Freigátu eftir heima í plágunni. Félagarnir Kevepenín og Amoxissillín ætla að lækna þau í dag. Rannsóknarskip fékk sumsé pillur við sínum streptum í gær, og á að vera orðinn fínn á morgun. Freigátunni finnst meðalið æðislega gott og vill helst fá að drekka miklu meira af því.
Móðurskipið pantaði sér tíma hjá lækni í fyrramálið. Þó ég sé ekki búin að vera neitt fárfárveik eins og aðalkokkarnir, þá er ég búin að vera með ponkulitla hálsbólgu.

Svo kannski er ég með... einn. Kokk. Í hálsinum.
Best að láta gá.

---

Ég þoli ekki fresti. Nú áttum við að skila haug í þessari viku, og ég var farin að hlakka voða til að það yrði búið. En nú eru "einhverjir" farnir að væla um fresti, og þá er þeim bara troðið uppá alla.
Sé fram á að þurfa að reyna að láta hina í fjölskyldunni passa hvern annan einhvern slatta um helgina og loka mig inni á skrifstofu. Eða fara í helv... Bókhlöðuna. Ömurlegt aðviðurkenna það þá vannst mér svaka vel þar í síðustu viku.
Ömurlegra að viðurkenna að ég þurfti að nota alla þessa fresti.

---

Og nú þarf ég að fara að flytja útvarpsþáttagreininguna mína. Sem var ekki borað uppá mig fresti í. Og er þar af leiðandi bæði einstaklega vond og allt of stutt og eins gott að hún Ólína Þorvarðar talar við okkur frá Ísafirði, þá getur hún ekki afhausað mig eins mikið. En þetta verður ekki toppeinkunn ársins. Sérstaklega ekki ef hann Gotti fer ekki að hleypa okkur út. Þá verð ég óétin í þokkabót.

---

"Mjög gott" sagði Ólína. Hún hlýtur að vera full.
Eða að hún er að undirbúa að snæpera mig með öööömurlegri einkunn.

---

Jeij, Halldór Guðmundsson er gestafyrirlesari í dag. Nú læri ég ritstjórn!
Ég heyri kjallaraútgefandann föður minn grænka af öfund.

---

Ésús.
Halldór er alveg hrrrroðalega flínkur fyrirlesari sem veit allt um útgáfur. Og þarf að segja gjörsamlega allt sem máli skiptir á 40 mínútum. Maður hefði haldið að flestir angurgaparnir hefðu vit á að halda sér saman í þessar mínútur?

Ekki alveg allir.

Ekki allra heilalausasti fávitinn í bekknum sem er búinn að pirra mig í hverjum EINASTA TÍMA! Djöfull þoli ég ekki þetta hálfvitagerpi.

(Var að hugsa um að nota orðið þvergirðingsfábjáni, en það er bara of flott fyrir hann þennan. Þetta er bara greindarskert viðrini sem ætti aldrei að fá að hafa samskipti við annað fólk.)

Sumir spyrja gáfulega, en þessum finnst bara gaman að hlusta á sjálfan sig. Ég þarf að sitja nokkra tíma í viðbót með þessum náunga. Sem betur fer bara í þessum kúrsi. Ég er ekki alveg viss um að hann lifi það af.

---

Dísuss! Haldiði að fávitinn ætli ekki bara að fara að kansela Halldóri til að fá kaffihlé! Thats it. Það verður banaslys í stiganum á eftir.

---

HAHAHAHAHAHA!
Þegar Fífl var búinn að fjölmyrða fyrirlesturinn fyrir aldur fram með einhverju helvítis kaffikjaftæði, lauk honum á eftirfarandi hátt:

Halldór: Eru einhverjar spurningar að lokum?
Fífl: Já, ég vildi fá að spyrja að einu...
Halldór: Spurning hvort EINHVER ANNAR vill spyrja að einhverju að lokum?

Fífl fór í fýlu.

Mér var svo skemmt að ég fresta morði þar til í næstu viku.
Halldór Guðmundsson fékk heilan haug af akademískum rokkstigum.

---

PS: Komin heim. Freigátan er enn með 40 stiga hita. Lyfin virðast ekki vera að virka. Líklega fær hún að nota læknistímann minn í fyrramálið því ég er orðin hálsbólgulaus. Sennilega af tómri Þórðargleði yfir niðurlægingu Fíflsins áðan.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Halldór Guðmundsson er einhver mesti snillingur sem ég hef kynnst. Kaldhæðinn og meinfyndinn og því alveg stórskemmtilegur.