22.10.07

Ég er orðin of ólétt fyrir þetta!

Freigátan er hin hressasta. Eftir að hafa haldið vöku fyrir foreldrum sínum í alla nótt, lagt sig næstum ekkert í dag og gubbað út um allt þegar hún vaknaði. M.ö.o., gert næstum útaf við dauðuppgefið Móðurskipið. Ég var búin að vorkenna mér hrrrroðalega í dag. Ekki haft tíma til að sofa eða borða, pissa eða kúka, fyrir heimilishaldinu og aðallega veika barninu og fannst ég eiga ógurlega bágt.

Þangað til Rannsóknarskip kom heim.

Þegar ég sá hann staulast inn úr dyrunum, allan í keng og allt í einu kominn með 40 stiga hita, varð ég allt í einu stálslegin eftir lögmálum samanburðarins. Annars fór hann líka í lungnamyndatöku í dag, til að athuga möguleikann á því að hann sé með einhverja einstaklega lúmska lungnabólgu. Það kemur ekki út úr því fyrr en eftir tvo daga, en ég vona að eitthvað komi í ljós sem hægt er að lækna, helst með pillum en ekki geislameðferð. Hann er búinn að vera með hita síðan einhvern tíma í byrjun september.

Það er sem sagt ekkert sérstaklega gott ástand á flotanum. Og þar að auki er bræla. Og enginn getur skutlað vesalings Smábát í tónlistarskólann, svo hann verður bara pollagallaður upp og sendur af stað fyrir eigin vélarafli.

Freigátan er annars á öðrum degi mislingabróður. Sem þýðir að hún var hálfmeðvitundarlaus af hita í gær, er með minni hita en öll í útbrotum í dag og ætti að fara að skríða saman á morgun. Ef við erum heppin ættum við kannski að fá að sofa smá í nótt.

Mikið happ að í þýðingafræði var troðið upp á alla auka-skilafresti á bókmenntaþýðingum sem áttu annars að vera til á morgun.
Sjúkk.

1 ummæli:

Svandís sagði...

Þetta er meira ástandið. Miklar og feitar batakveðjur til ykkar allra. Við höfum verið föst innandyra í tvær vikur af síðastliðnum fjórum vegna hinna ýmsustu ógeðspesta sem hafa herjað á mannskapinn og hef ég því mikla samúð með ykkur öllum.

Ég myndi baka handa þér batniköku og senda þér ef ég byggi aðeins nær.

Knús,