Ritari heimilsins hefur átt annasaman morgun. Enda eiga heimilismenn nú pantaða tíma hjá öllum sérfræðingum borgarinnar, flug vítt og breitt um landið auk þess sem niðurstöður afstaðinna læknisrannsókna eru allar komnar í hús.
Í morgun sagði ég Freigátunni að nú ætluðum við að hafa það rólegt í dag og vera helst bara á náttfötunum. En hún er nú ekki á því og mér sýnist hún vera að þvinga fram tiltekt í töpperver skápnum. Enda svaf hún óvenjusæmilega og er í dag aðeins brattari, finnst mér. Reyndar koma horskriður reglulega og grenjuköst við minnsta mótlæti. En samt er nú allt í áttina. Ég vona af öllum kröftum að hún komist í leikskólann á mánudag. Og það vonar hún líka. Í morgun klæddi hún sig í stígvél, setti á sig húfu og tók leikskólatöskuna og grenjaði svo kröftuglega frammi við dyr, góða stund.
Í haust hefur staðið yfir hálfgerð barátta. Smábátur fékk að framlengja kvöldið um hálftíma, þ.e.a.s. fara hálftíma seinna að sofa en í fyrra, þar sem hann var orðinn alveg hroðalega flinkur í að vera hress á morgnana, jafnvel kom fyrir að hann vaknaði sjálfur! En í haust er þetta búið að vera bölvað basl. Engin mútur eða hótanir hafa dugað, drengur hefur einfaldlega verið of sybbinn á morgnana og farið í skólann í ranghverfum fötum með augnlokin á hælunum. Í gærmorgun missti ég þolinmæðina alla leið og lýsti því yfir að fyrri háttatími yrði tekinn upp, undir eins. Í morgun vaknaði Smábátur við fyrsta Móðurskipsgal og var mættur í morgunmat um mínútu síðar, í fötunum með réttuna út og augun opin alveg alla leið. Það er ljóst að gamla skipulagið er komið til að vera.
Í annarri baráttu er ég hins vegar að hugsa um að játa mig sigraða. Það hefur að gera með rigninguna. Ég er óskaplega mikið fyrir að þurrka þvott úti. En það hefur bara ekki verið hægt á þessu landshorni síðan í ágúst, nema í mjööög miklu hófi. Svo þá er aldrei hægt að þvo meira en kemst á handklæðaofninn í hvert skipti. Og það gengur ekki. Þannig að, móðir mín verður svoooo glöð að heyra þetta, ég huxa að ég fái mér þurrkara. Fann meiraðsegja svoleiðis á tilboði einhversstaðar á töttögogfemmþúsund kall. Það er barki fyrir svoleiðis í baðherbergis-þvottahúsinu. Ég var bara með þrjósku. Verst að ég þarf líklega að láta gera smá endurskipulagningu á innréttingunni... eða skipta um þvottavél.
Já, ég er ekki frá því að hreiðurgerðin sé farin að gera vart við sig...
26.10.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ég mæli með því að þú fáir þér þurrkara og reyndar öll tæki sem geta gert þér lífið léttara í heimilishaldinu. Ég hafði lengi fordóma fyrir bæði uppþvottavélum (hvað, eins og maður geti ekki vaskað uppp í höndunum, huh!) og þurrkurum (það er svo góð lykt af útiþurrkuðum þvotti)en eftir að hafa átt hvoru tveggja verður ekki aftur snúið. Það er bara svo óendanlega margt sem hægt er að gera við tímann annað en að vaska upp og hengja upp þvott. Og hananú!
Svo vona ég að heimilisfólkið fari að ná heilsu aftur.
Ha? Ertu ólétt? Til hamingju!
Nei, grín. (Ekki hamingjuóskirnar sko). Var búinn að frétt þetta e-s staðar fyrir löngu en hef bara vanrækt lestur á blogginu þínu svo lengi vegna annarra anna að það er orðið skammarlegt. Til merkis um það hvað ég er háður því (af því þú varst með efasemdir um innihaldið eftir „Ellu-auglýsinguna“ með Indru ... (sem ég editeraði reyndar á handritsstigi :)) þá hef ég verið að smáþoka mér í gegnum allt ólesið hjá þér frá því snemma í júlí. Af því þú varst ... og ert ennþá einn af uppáhaldsbloggurunum mínum. Jafnvel þótt mér komi ekkert við allt þetta tal um hor og grindverki, lungnaþan og suðrænar pestir :), þá hefurðu samt lag á að segja þannig frá því að mann langar að lesa það. Það er hæfileiki.
(Þess má til gamans geta að ég er búinn að vera hel-flensaður síðustu fjóra dagana og þess vegna er vökutíminn allur í rugli. (Hehe, eins og hann sé einhvern tíma ekki í rugli hjá mér).
Djöfull var ég samt feginn að hafa misst af áskoruninni um óléttusönginn undir jólalaginu. Það hefði kostað andvökunætur í metnaðarkasti. :)
Og ég varð nú bara soldið forvitinn að vita hvaða erindi þú áttir við mig 23. ágúst meðan Hið Dularfulla Leikrit tók á sig mynd. ???
Skrifa ummæli