29.11.07

Duddurudduuuu!

Búin að vera með vaxandi kvíðaröskun vegna ljóðaþýðinga sem ég á að skila á morgun og var ekki byrjuð á í morgun. Í ljós kom... að þýða 19. aldar ljóð úr frönsku? Ekki eins mikið mál og margir gætu haldið... Vinnur nú sennilega engin þýðingaverðlaun, og ekki nennti ég að eltast við rímið, en, samt sem áður, verður hreint ekki alslæmt, huxa ég. Þungu fargi af mér létt. Og það var farið að síga heldur meira í heldur en óléttan.

Semsagt, á meðan Rannsóknarskip og Smábátur sátu í kristilegum hugleiðingum á jólatónleikum Kvennakórs Reykjavíkur, sat ég og þýddi tvö ógeðslegustu ljóðin úr Ljóðum illskunnar eftir Baudelaire. Kunni fleiri orð um rotnun, maðka og allskonar slímkennt ógeð en mig minnti. En til að gefa óljósa hugmynd um geðsleika innihaldsins; ég þurfti samt talsvert að brúka samheitaorðabókina. Ætla ekki að birta þessar þýðingar hér, þær eru að fara beint í bók. (Sem er nottla frekar kúl... þó við séum bara að tala um kennslubók... sem fyrsta árs nemar í bókmenntafræði framtíðarinnar, og einu lesendurnir, eiga sennilega eftir að hata meira en pestina.)

Freigátan varð annars að fullgildum sjúklingi í dag. Var með bullandi hita allan daginn og gubbaði til dæmis út um allt í hádeginu. Svo að það þýðir víst ekki lengur að vera með neina bjartsýni um að þessi veiki sé eitthvað minniháttar. Hún var bara lengi af stað. En litli sjúklingurinn sefur núna eins og lítið grjót og er vonandi að hamast við að láta sér batna á meðan.

Móðurskip hefur gert samning við Rannsóknarskip um að hann velti heim uppúr hádeginu og passi greyið á meðan ég reyni að bumbusunda úr mér grindverkinn frá í gær. Er annars öll að skríða saman eftir hálkuhnykkinn. Er samt að huxa um að reyna að komast til sjúkraþjálfara einhverntíma, og huxanlega nudd, ef ég kemst þá ekki að því að meðgöngu-fjárlögin séu uppurin fyrir þetta árið. Sem gæti svosem skeð.

Annars er þetta ágætishugmynd. 
Skilaboð til fjölskyldunnar: Ein jólagjafahugmynd handa óléttasta fjölskyldumeðlimnum, gjafabréf í eitthvað svakalega gott meðgöngunudd. Til dæmis í Lótus jógasetri eða einhversstaðar þar sem menn eru með bumbubekk.

1 ummæli:

Siggadis sagði...

Já, ég mæli með Mecca Spa - þar eru þeir með svona bumbubekki og þegar maður er farinn að flóðhestast eins og mófó þá þýðir ekkert annað en solleis bekkir... :-)