Freigátan var nú samt orðin frekar hress, þannig að ég ákvað að drífa mig, en við fórum bara á okkar bíl. Sem var eins gott. Rannsóknarskip fékk Freigátuveikina og ólétta konan þurfti að fara með hann snemma heim. Núna er hann kominn í rúmið, alveg fárfárveikur, og barnapían flýtti sér heim til að smitast ekki.
En fátt er svo með öllu illt, ég kom þá nógu snemma heim til að blogga um það að Sigga amma mín er 85 ára í dag. Og hefur vonandi gaman af því. Ég veit ekki hvort var nú mikið um veisluhöld á spíttlanum á Egilsstöðum þessvegna. Hún er nú orðin óttalega léleg til heilsunnar.
Þegar ég var lítil hélt ég að það væri frí á 1. desember til þess að maður gæti borðað fyrsta súkkulaðið úr dagatalinu og fara með afmæliskort til ömmu. Þau voru jafnan heimatilbúin og stór hluti af deginum fór í hönnunarvinnu.
Foreldrin mín áttu líka brúðkaupsafmæli í gær, höfðu þá verið gift í 39 ár. (Þau ætluðu að gifta sig 1. des, en þurftu að flýta því af því að pabbi þurfti að leika. Þetta er fólk með forgangsröðina á hreinu!) Í tilefni daxins, eða ekki, fóru þau á jólahlaðborð í gær með vinnustað... annarshvors þeirra, og ég vona bara að þau hafi komið heilli frá því heldur en Rannsóknarskip gerði. Annars gaf ég mér ekki tíma að dag til að heyra í þeim og gá hversu þunn þau væru.
Rannsóknarskip fær allavega líklega að eyða morgundeginum, sem var annars eyrnamerktur þynnku, í eitthvað annað og verra. Skinnið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli