You missed the starting gun
Þegar þetta kom í laginu sneri mamma hans Gunna litla sér við í sætinu og sagði okkur, "krökkunum" í aftursætinu, að láta þetta nú ekki henda okkur. Gunni litli var einn af M0nt-sonum mínum og við vorum í hellaskoðunarferð um nágrenni Montpellier. Foreldrar Gunna litla voru í heimsókn og buðu mér að koma með. Þau voru nýbúin að kaupa ofursafn með Pink Floyd.
Okkur Gunna þótti nú frekar ólíklegt að það myndi einhvern tíma henda annað hvort okkar að standa kjur þegar við ættum heldur að hreyfast úr stað. Og ég hef ekki séð hann Gunna litla síðan við kvöddumst úti í Montpellier. Hann var á leiðinni í eitthvað stórmerkilegt nám í Háskóla Reykjavíkur og hugði á glæstan feril í einhvers konar Evrópumálum. Sjálfsagt er hann núna bara langt kominn þangað. Hann er nefnilega jarðýta.
Ég er hins vegar Þeytingur. Samkvæmt Hver tók ostinn minn? Það segir pabbi minn. Ef einhver tekur minn ost hleyp ég alveg strax af stað að leita að nýjum. Mér er alveg sama hver tók hinn. Enda veit ég alltaf um fleiri osta en ég kemst yfir að sinna. (Eða éta.)
En þetta ömurlega slagorð í fyrirsögninni er alveg snjallt. Maður þarf að grípa augnablikin. Og lifa núna. Mér hættir til að lifa í framtíðinni. Ég á erfitt með að halda mig í nútíðinni og fortíðin er hreinlega ekki til. Þess vegna þarf ég að taka myndir. Og þess vegna var mjög kjánalegt af mér að hætta því í ein 10 ár og ákveða að muna bara hluti. Það þýðir að ég man ekki neitt. Þess vegna er líka mjög nauðsynlegt að ég hafi einhverskonar dagbók. Þá get ég flett upp. Því miður byrjaði ég aftur að taka myndir ekkert löngu eftir að ég byrjaði að blogga. Svo síðustu ár eru vel dokkúmenteruð þó áratugurinn á undan sé meira og minna í dái gleymskunnar.
Og hvaðan koma svo þessar vangaveltur?
Svosem ekki af neinu.
Eftirá að hyggja, þá hefði ég nú samt átt sjá ákveðnar vísbendingar á ákveðnum tímum. Þumalputtareglan er þessi: Ef ég er ekki að minnsta kosti að gera þrennt, og langar að gera svona fjórt í viðbót, á er ég með þunglynduna og þarf að athuga málið. (Og ef ég er að gera þrennt, langar í fjórt í viðbót, en er ferlega syfjuð og lengi á leiðinni allt, þá er ég ólétt. ;-)
Núna er ég aðallega með hormón.
Á föstudaginn breyttist planið þannig að síðasta heldi Smábáts hjá okkur fyrir jól var allt í einu runnin upp, í stað þess að vera um næstu helgi eins og planið var. Ég fór að grenja í bílnum af því að ég sá ekki fram á að geta bakað piparkökur með honum, eins og ég ætlaði.
Í gær var Freigátan óþæg og vildi ekki leggja sig og Rannsóknarskip var fárveikur og gat ekkert hjálpað til. Og ég grenjaði heilmikið yfir því.
Í dag voru lesnar tvær voða fallegar fæðingasögur fyrir okkur í jóganu. Ég átti verulega bágt með mig.
Þetta fer að verða eins og æsispennandi framhaldssaga. Yfir hverju ætli ég grenji á morgun?
Sé til dæmis fram á hroðalega leiðinlegan þýðingafræðitíma... en græt kannski frekar gleðitárum þegar hann er búinn, þar sem þetta er allra síðasti tími þessarar annar.
Jibbí? Ég veit það ekki.
Þetta er nú búið að vera ansi gaman...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli