23.4.08

Af þunglyndunni

Ég er ekki alki.

En það er ekki mjög langt síðan ég varð alveg viss. Þar til fyrir tiltölulega skömmu gat ég nefnilega alls ekki huxað mér að lifa algjörlega án þess að fá mér stöku sinnum í tána. Þurfti ekki að gerast oft eða mikið, en það var eitthvað við neyzlu áfengis sem mér fannst ég alls ekki geta lifað án.

Þetta hefur oft valdið mér vangaveltum í gegnum árin. En ég hef mikið skoðað áfengissýkina og fyrir utan þetta eina, sem er reyndar mjög snar þáttur í þeim sjúkdómi, þá fannst mér ég samt ekki haldin neinu því sem einkenna á þann sjúkdóm. Hvað var þá málið?

Ég held ég hafi komist að því þegar ég lærði nýtt hugtak í heimildaþáttum Stephens Fry um Bipolar Syndrome, eða geðhvarfasýki. Þar talaði hann m.a. aðeins um self medication, eða sjálfsmeðhöndlun. Hann sagðist m.a. hafa sjálfsmeðhöndlað sín geðhvörf með áfengi og kókaíni um tíma. Og rann þá upp ljós fyrir minni.

Fyrir nokkru hætti nefnilega áfengisdrykkja af neinu tagi að vera mér nauðsynleg. Ég gerði mér ekki algjörlega grein fyrir hvað gerðist eða hverig. Allt í einu urðu samdrykkjur með skemmtilegu fólki... jú, alveg jafnskemmtilegar og áður. Ef ekki bara skemmtilegri. En alls ekkert nauðsynlegar. Og höfðu heldur ekki jafndramatísk andleg eftirköst. Meira bara svona venjulega þynnku. En áður en ég náði að upplifa þessa ljómandi skemmtan mjög oft (sem var þó óneitanlega líka sjaldnar, þar sem hún kom ekki lengur til af neinni innri þörf) var ég nú bara aftur orðin ólétt og tók hreinlega ekkert eftir neysluleysi áfengis sem því fylgdi í þetta skiptið. Ég tók hins vegar heilmikið eftir því síðast.

En eftir að ég skildi til fullnustu hugtakið self medication eða sjálfsmeðhöndlun, áttaði ég mig. Síðan ég nokkru eftir að ég hóf hina hugrænu atferlismeðferð hef ég ekki orðið vör við nokkurn skapaðan hlut af þunglyndi. Fyrst eftir að meðferð lauk þurfti ég að beita aðferðunum sem ég lærði í henni markvisst en þess þarf ég ekki lengur. Ég geri það sennilega alveg ósjálfrátt og án þess að taka eftir því. Heimurinn ferst aldrei lengur yfir neinu, ég er aldrei óeðlilega þreytt eða félagsfælin og hef ekki orðið vör við óyfirstíganlegt vandamál mjög lengi. Ég hringi hiklaust í fólk ef ég þarf (mitt fyrsta þunglyndiseinkenni er yfirgengileg símafælni) og fer algjörlega hvatningar- og ástæðulaust út úr húsi, helst á hverjum degi.

Ójá, ég er orðin algjörlega óþunglynd. Auðvitað ekki þar með sagt að þetta geti ekki hellst yfir mann "eins og hland úr fötu" eftir 27 ár eins og kom fyrir Árna Tryggvason, en ég er nú meira að segja svo léttlynd að ég hef ekki baun af áhyggjum yfir því.

En ég held að ég hafi, alveg fram á þarsíðasta ár, sjálfsmeðhöndlað mitt klíníska þunglyndi með áfengi. Fyrr á árum gerði ég það líklega með drama. Þá á ég ekki við þetta skemmtilega sem á leiksviðunum gerist, heldur lífsdrama. Gjarnan karlmanna- og sambandatengdu. Hætti því þó þegar ég áttaði mig á því að vandræðalausir menn væru vænlegri kostir en vandræðamenn og tók umsvifalaust upp hið vandræðalausasta samband við Rannsóknarskipið sem ég treysti mér til að fullyrða að líður ekki undir neins konar lok meðan við bæði lifum. En hann var til að byrja með, ólíkt öllum undangengnum, ekki haldinn neins konar skuldbindingafælni.

Þegar ég spekúlera í því huxa ég að mjög margt af ógæfufólkinu sem býr hvergi og hangir bara í miðbænum, sé í rauninni ekki með alkóhólisma, heldur sé að sjálfsmeðhöndla eitthvað allt annað. Með frekar litlum og dýrkeyptum árangri. Og ekki er einu sinni víst að það séu alltsaman geðsjúkdómar. Ég get alveg ímyndað mér að einhverjir séu að reyna að deyfa fortíðina, uppeldið, eða bara lífið og tilveruna. Sumir eru nefnilega óskapleg viðkvæmir fyrir öllu.

En þetta var allavega nokkuð sem ég áttaði mig ekki á fyrr en eftir á. Og ég held að óhætt sé að alhæfa nokkuð örugglega um að sjálfsmeðhöndlun með aðstoð áfengis eða annarrar sjálfseitrunar kunni ekki góðri lukku að stýra. Meðhöndlun kvilla manns ættu fagaðilar helst að stýra. Maður sér sig nefnilega svo illa.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Got hjá er kjeelling. Maður verður ad vera maur sjálur-alltaf- heidarlegur. Það segir Dr. Spivey.
Scanlon