20.4.08

Hvíthyski

Rannsóknarskip drakk sig fatlaðan á árshátíðinni og kom heim undir morgun í ástandi sem ég hef aldrei nokkurn tíma séð hann í, eða nokkru sem nálgast það. Og mun sennilega aldrei framar. Mér heyrist hann vera á leiðinni í Góðtemplararegluna um leið og Alkaseltzerinn fer að virka.

Meðvirka móðurskipið fór út með börnin í bítið, til þess að fulli pabbinn gæti nú klárað að sofa úr sér. Freigátan sagði hverjum sem heyra vildi að pabbi væri sofandi og lasinn. Ég ímyndaði mér að ég sæi fólk renna meðaumkvunarauga til aumingja illa giftu konunnar með ungu börnin og beið bara eftir að einhver kæmi með bækling frá Al-anon.

Núna er þunni pabbinn og þreyttu börnin að leggja sig, myglan í þvottahúsinu vex og vex og mér þykir meira í anda ástands fjölskyldunnar í dag að horfa á póker á Skjáeinum heldur en Silfur Egils.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég krýni þig hér með drottningu hinna óborganlegu og svaðalegu skemmtiskrifa: Húsmóðir í vesturbænum goes catastrophic. Dj. geturu verið skemmtileg.