21.4.08

Saga af flík

Systir mín ofurfrænkan segir að þegar maður sé farinn að blogga um veðrið sé kominn tími til að hætta því. Þess vegna er um að gera að hefja þessa færslu á veðrinu.

En þegar veðrið er svona, hitinn í kringum 10 stigin vindurinn frekar kaldur og aldrei að vita hvort er að koma sól eða rigning, þá dreg ég fram mjög merkilega flík. Við fyrstu sýn virðist hún vera ósköp venjuleg hettupeysa, svört eins og syndin, nema með nokkrum hvítum málningarslettum á bumbunni. En flík þessi á sér merkilega sögu.

Hana fékk ég "lánaða" hjá írskættaðri vinkonu minni Mel að nafni. Hana þekkti ég úti í Montpellier, en hún hefur síðan horfið af yfirborði jarðar, enginn veit um hana í Mont og ekki gúgglast hún. (Imelda Philpott frá Cork. Ef einhver hittir hana bið ég að heilsa henni.)

Hina ágætu flíka hafði hins vegar téð Mel fengið "lánaða" hjá félaga okkar, ameríska Tom. Svo kallaður til aðgreiningar frá enska Tom, sem bjó líka á svæðinu. Bróðir ameríska Tom hitti ég úti í Montpellier síðastliðið sumar, bað hann fyrir kveðju til upphaflegs peysueiganda með þeim skilaboðum að flíkin væri í gíslingu á Íslandi og yrði aldregi framseld. Bróðirinn, hvers nafn ég man nú ekki í svipinn, taldi engin tomerki á að færa bróður sínum skilaboðin, næst þegar hann heyrði til hans, en sá var kominn eitthvurt til Englands, minnir mig. 

Bróðirinn kannaðist við málið, enda sá Tom sá ammríski mjög eftir flíkinni góðu. Reyndar svo mikið að síðast þegar ég hitti hann hótaði hann mér lögsókn og málaferlum fyrir peysuþjóðfnaðinn yrði henni ekki skilað hið fyrsta. Hefði ég þá nú skilað henni, hefði ég getað, en þá vildi nú svo við að flíkarfjandinn var farinn með flestum mínum tjörgum til Glaðskóga. Svo þegar Interpúll kemur og handtekur mig, þá veit ég hvað hann vill.

Fyrr en þessar hótanir komu fram vissi ég nú bara ekki um dálæti ammríska Tom á spjörinni. Né heldur þá staðreynd að hann hafði til að byrja með haft fyrir því að þjófstela henni frá móður sinni, alla leið vestrí Kalifornjuríki. En hvað menn hafa að gera við svo skjólgóðan fatnað þar syðra, því eftir því sem mér sýnist í sjónvarpinu er ævinlega sundfataveður þar um slóðir.

Málningasletturnar eru síðan minjagripir um leikmyndina í Gaukshreiðrinu á Egilsstöðum, sem ég málaði óvart í peysugarminum. Mér þykja þessar slettur gera flíkina síst ómerkilegri þar eð þetta eru hugsalega síðustu minjagripirnir um tilvist þessara fínu leikmyndar sem vísast er löngu kominn í gúanóið. Einu sinni átti ég rauðan bol með brúnni málningarslettu og bláar gallabuxur með gulri. Þessum flíkum henti ég með mikilli eftirsjá þegar hvurutveggja var orðið á þykkt við köngulóarvef af ofnotkun. Og dálætið kom að mestu til af málningarslettunum. Þær voru nefnilega úr Kardemommubænum.

1 ummæli:

Elísabet Katrín sagði...

Ein magnaðasta peysusaga sem ég hef heyrt :) vonandi er Árni bóndi ekki lengur þunnur ;) Knús á ykkur :)