13.4.08

Top Gear!

Smábátur er bílaáhugamaður. En það umræðuefni mætir gjarnan yfirþyrmandi áhugaleysi annarra fjölskyldumeðlima, honum til armæðu. Þó hefur eitt gerst. Þættirnir Top Gear, sem hann horfði lengi vel einn á fjölskyldumeðlima, hafa fundið leið sína að hjarta mínu.

Vissulega fjalla þessir þættir alfarið um bifreiðar, sem ég hef ekki snefil af áhuga á. En. Í þeim er einnig áberandi sú þrætubókarlist engilsaxa að tala ævinlega eins og sá sem vitið og valdið kemur og takast síðan á við allar aðstæður eins og fullkominn fáviti. Og allt á fullkomlega Martin-Regalskri háskólaensku. (Einhversstaðar í Frakklandi hirti ég upp hroðalega fordóma sem valda því að ef ég heyri minnsta hint af kokkneyi snýr nefið á mér beinustu leið upp í loft. Jamie Oliver fengi aldrei að sjá annað en nasahárin á mér.) Og þegar þáttagerðarmenn eru þrír og aldrei sammála verður útkoman ævinlega sú að ég missi varla af þætti lengur og hlæ eins og hýena að hverjum einasta. 

Fyndið liggur ekki síður í fjölbreytileika uppátækja þessara félaga. Ég hef séð þá ferðast um suður-Bandaríkin á þarlendum druslum, fá sér venjulega bíla og gera þá langa, og núna áðan voru þeir að sigla á pallbíl yfir Ermasund. Og þetta eru bara örfá dæmi.

Annars eru Rannsóknarskip og Smábátur í leikhúsi, Freigátan að syngja sig í svefn og Hraðbátur skemmtir okkur með magapínu á milli blunda.

Engin ummæli: