17.4.08

Vorið og ípotturinn.

Hraðbátur sefur allar nætur. Fer að sofa um leið og ég og vaknar um það leyti sem aðrir heimilismenn eru að hafa sig út úr húsi á morgnana. Nema í dag. Við sváfum til 10! Enda er hann hinn brattasti, brosir hringinn og segir: Agú. (Sem er einhverra hluta vegna oft fyrsta orðið sem ungabörn segja að einhverju ráði.)
Þessi ofursvefn hefur kannski eitthvað með það að gera að um fimmleytið í nótt ákvað ég að treysta á að vorið væri komið, hætta að gufusjóða fjölskylduna og skrúfa niður í ofninum í svefnherberginu. Ýmislegt fleira er til marx um vorkomuna. Freigátan hefur snarminnkað horframleiðslu, alveg án utanaðkomandi aðstoðar í lyfjaformi, og í gær var moldrok.

Annars tók ég einnar evru ípottinn minn í fyrsta sinn í notkun í gær. (Og kann Þórunni Grétu góðar þakkir fyrir þessa þýðingu á æpodd.) Byrjaði að dæla uppáhaldslögunum mínum af hverjum disk inn á tölvuna í gær. Þetta er mikil snilld fyrir fólk eins og mig sem á yfirleitt ekki nema eitt eða tvö uppáhaldslög á hverjum hljómdiski. Enn sem komið er hef ég ekki hugmynd um hvernig ég myndi raða á spilunarlista, en eftir að hafa tekioð prufugöngu upp í Möguleikhús og til baka með græjuna í eyrunum held ég helst að það færi eftir hvort ég ætlaði að labba hratt eða hægt. Gallinn er hins vegar sá að þegar maður er eingöngu með uppáhaldslögin sín, fer ekki hjá því að það er alltaf nýbyrjað eitthvað ógurlega skemmtilegt þegar maður kemur þangað sem maður ætlar.

Gaman hefði nú verið að fara út og halda áfram að hlusta seinnipartinn... en þessi frameftirsvefn fór nú þannig með leikritanir morgunsins að líklega þurfum við að hýrast alfarið inni í dag. Sem er þó bærilegra eftir að ég lækkaði líka á ofninum í stofunni.

Engin ummæli: