19.4.08

OJ!

Hólí mólí.
Alltaf skulu nú ævintýrin gerast þegar maður er einn heima. Var að skipta á Hraðbátnum fyrir svefninn og var litið yfir í þvottahúshlutann á baðherberginu, upp í loftið, fyrir einhverja rælni. Tek ég ekki allt í einu eftir því að kverkin í loftinu þeim megin er gjörsamlega SVÖRT. Við nánari athugun, af myglu.

Ég fær tilfelli af viðbjóði, flý út með barnið, kem því í háttinn og ræðst síðan þegar til atlögu með tusku, skrúbb og terpentínu. (Sem var það sterkasta sem ég fann.) Auðvitað náði ég ekki nærri öllu, en ég þorði ekki að fara að príla uppá stóla, borð og þvottavélar, svona ein heima með litlu börnin. (Amman kom sko og rændi Smábátnum í dag, svo hér er ekki einu sinni neinn annar semí-fullorðinn, ef ég skyldi hrynja niður og hausbrjóta mig.) Þarf að gera þetta betur á morgun, en gat bara ekki látið þetta alveg vera, fyrst ég var búin að sjá það.

Gúgglaði síðan óbjóðnum og komst að því (sem ég sosum vissi) að svona mygluviðbjóður er alveg kol-heilsuspillandi... þarna er kannski komin skýring á einhverju af heilsuleysinu... en ég hef grun um að þetta hafi nú bara komið með þurrkaranum. Hann þykist nefnilega vera barkalaus. Sem er svo sem óþarfi fyrir hann, það er innbyggður barki þarna úti í horni og allt. En þvottahús-baðherbergið hefur verið alveg ógurlega rakt síðan. Sennilegast þarf ég að fá mér svona rakaétara, sem kostar meira en þurrkarakvikindið.

Jukk. Best að reyna að sofa. Og reyna aftur á morgun, með klór, Þrifi, Jifi, tannkremi og öllu öðru sem maður finnur í kotinu. Dugi það ekki til skal gerður leiðangur í leit að baneitri fyrir mylgusvepp. Kann einhver húsráð? Þarf kannske bara að kveikja í kofanum?

3 ummæli:

Svandís sagði...

Ekki kann ég nú svo sem nein ráð en ég get samt huggað þig með því að svona venjulegir rakamyglusveppir eru ekki heilsuspillandi. Það er aðeins lítið brotabrot af svona húsasveppum sem eru heilsuspillandi og ef þið eruð með þá tegundina þurfið þið væntanlega að flytja og henda öllu sem þið eigið. Alla vega að láta djúp djúp djúphreinsa allt.

Nafnlaus sagði...

Iss, engin ástæða til að tapa sér yfir þessu. Örugglega mjög svo meinlaus hefðbundin mygla sem hefur boðið sér í heimsókn. Lýst samt vel á þetta með tannkremið - sé þig fyrir mér tannbursta loftið af miklum móð.
Hrafnhildur

Ásta sagði...

Þetta kvikindi sýgur í sig allan raka og mín reynsla er sú að eina leiðin til að ná þessu burt er að skrapa eða mylja það út. Og laga svo það sem veldur rakanum. Annars kemur það bara aftur. En ég held að þetta sé annars frekar meinlaust.