2.7.08

Páll Ólafsson

Las í Mogganum í gær að ástarljóðin hans Páls Ólafssonar hafi selst upp. Fólki finnast þau nefnilega svo sæt og rómantísk...

Ég er að lesa þessa bók núna, og er líklega að fara að skrifa um hana ritfregn í Gletting. Enda er hún vel saman sett, forvitnilegir kaflar í henni um ævi og störf Páls og samband hans við konurnar sínar og flott vinna í þessari bók. Sosum.

Og Páll svosem fornvinur minn, hafandi búið á Hallfreðarstöðum, hvar móðir mín ólst upp og ég var seinna heilmikið í sveit hjá Móðursystur minni. Maðurinn hennar, hann Gísli, var svona krónískur kennari sem eyddi heilmiklum tíma í að kenna mér að yrkja og Páls sögu Ólafssonar.

En ég get ekki að því gert að þegar ég les þessi ljóð, vitandi við hvaða aðstæður þau voru ort, finnst mér höfundurinn hafa verið fábjáni og reglulegt andstyggðartól. Hann á sumsé í framhjáhaldi við barnunga dóttur besta vinar síns, heitins. Og þykist eiga með það að yrkja henni ógurleg saknaðarljóð, sem flest eru full af ásökun og sjálfsvorkunn, þegar hún vogar sér að fara til Reykjavíkur í einn eða tvo vetur. Frá honum. Harðgiftum manninum sem hefur ekkert huxað sér að fara frá konunni sinni, sem þó var síður en svo óþekkt á þeim tíma, sama hvað menn halda um hina siðsamlegu gömludaga. Hann hikar ekki við að kenna stúlkugreyinu um alla sína óhamingju og dregur minningu föður hennar samviskulaust inn í hóraríið. Sveiattan bara.

Og þessari "rómantísku ástarsögu" lyktar þannig að unga stúlkan bíður eftir honum í 17 ár, alveg þangað til fyrri konan hans deyr, giftist honum það sama ár, en þá er hann orðinn gamall kall og ekkert nema geðvonskan það sem eftir er ævi hans. 

Éld henni hefði verið nær að segja honum að fara með sitt væl lóðbeint til helvítis. Ná sér svo í einhvern alminilegan í Reykjavík. Því eigulegur maður hefur hann Páll Ólafsson ekki verið. Og mér er alveg sama þó hann gæti vísað.

Nú vildi ég óska þess að hann fóstri minn væri enn á lífi svo ég gæti rifist soldið við hann um mannkostaleysi og Páls Ólafssonar.

4 ummæli:

Varríus sagði...

Ástarljóð Páls eru snilld. Diskurinn Söngur riddarans er frábær og mannbætandi. Annað varðar okkur sossum ekki um.

Ekki frekar en drykkjuskap Jónasar, tvíkynhneigð Sjeikspírs eða nasisma Gunnars Gunn.

Nafnlaus sagði...

Hahahaha - þetta fannst mér fyndið að lesa og gott að hafa í huga. Þó ég geti líka alveg tekið undir orð Varríusar hér að ofan. Og spáið í það: vatnið sem við drekkum gæti einhvern tímann hafa verið risaeðlupiss!!! Kemur málinu svona næstum því við...

Nafnlaus sagði...

Skv. Páli sjálfum lagði hann metnað sinn í að kunna að kyssa manna best - það var sem sagt að virka ;)

Sigga Lára sagði...

Efnið, tilefnið og baksagan er nú mjög til sýnis í mörgum þessara ljóða. Enda eru þau sjálfsagt mörg hver ekki ætluð öðrum en viðtakandanum svo kannske við ættum bara að hætta að hnýsast í þau, svona almennt.

Jájá, vel yrkir hann, sosum. En ef einhver yrkti... (Erkti? Urkti?) til mín ástarljóð sem væri að hálfu leyti um föður minn þá þætti mér það nú óneitanlega draga nokkuð úr rómantíkinni. Og það sama finnst mér nú hjá Páli, sama hvað allri baksögu líður.

En það er alveg hægt að finna eitt og eitt flott. Enda má maðurinn nú vera vont skáld ef ekki er hægt að draga eitt og eitt sæmilegt úr þessu safni.

En þegar maður les þau svona öll í tímaröð þá er þetta upp til hópa óttalegt væl, þó sæmilega sé það ort. Óvíst, bara.