26.11.08

Horfréttir

Það er nú orðið aumt þegar horfréttir heimilisins eru það jákvæðasta sem maður skrifar. Og eru þær þó frekar leiðinlegar. 

Freigátan er búin að vera veik nánast samfleytt í fimm vikur eða þarumbil. Síðan fyrir helgi er hún búin að liggja í flensu og er enn með talsverðan hita. Rannsóknarskip fór með hana til læknis í gær en hann sagði bara að þetta væru endalausir vírusar og ekkert við þeim að gera. Eyru og lungu í fínu formi, enda er hún á pústi. Mikið og margt að ganga á leikskólum þessa dagana. Ég reyni að vera dugleg að troða í hana lýsi og allskyns þrælhollum mat en hún er orðin óttalega föl og aumingjaleg, greyið. Hún var heima næstum alla síðustu viku og ég er farin að efast um að hún komist á leikskólann í þessari. Allavega liggur hún bara í sófanum og mælist enn með fimm kommur.

Hraðbáturinn virtist bara ætla að sleppa með smá kvef en fór svo að verða órólegri og um þverbak keyrði í gær á meðan Freigátan var hjá lækninum. Þá fór hann að gráta alveg óstöðvandi og Rannsóknarskip var sendur beinustu leið til baka á læknavaktina með annað barn þegar hann kom aftur. (Og lenti á sama lækni... hallærisleeeegt.) Seinna barnið reyndist þó vera hægt að laga. Hraðbáturinn semsagt aftur kominn með eyrnabólgu, aftur kominn á pensillín og á að klára birgðarnar í þetta sinn. Hann svaf svakavel í nótt og hefur snúið aftur til síns pollrólega persónuleika.

Móðurskip byrjaði að verða lasin í síðustu viku, druslaðist nú samt á haustfund Bandalaxins á laugardaginn en ákvað á síðustu stundu að skrópa í djammið um kvöldið, þó það væri nú fúlt. Er síðan búin að vera að drepast, þangað til í dag, allavega er ég farin að taka til. Reyndar ennþá ill í öðru eyranu og get ekki andað.

Smábátur og Rannsóknarskip sluppu með stutta slæmsku í síðustu viku. Enda voru þeir báðir flensusprautaðir.

Nú er ég að hugsa um að reyna að finna upp á einhverju til að láta Freigátuna síður hirða upp alla vírusa sem hún rekst á. Hún tekur lýsi og fjölvítamín og annað sem mér hefur dottið í hug að gera er að 
- þvo henni alltaf vel í framan og um hendurnar þegar hún kemur heim af leikskólanum og skipta jafnvel um peysu.
- reyna að skreppa með hana í smá labbitúr á leiðinni heim úr leikskólanum og viðra hana.
- setja hana í bað á hverju kvöldi og skola hárið vel.

Kann fólk annars einhver kerlingabókaráð við leikskólapestum? Önnur en að láta barnið bara hætta að vera á leikskóla?

(Nú virðist leikskólabarnið þó vera að fá matarlystina, liggur í sófanum og pantar hafrakex og ost.)

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sumir vilja meina að kúamjólk sé af hinu illa og börn skáni við að skipta henni út.
Sonur minn var hins vegar með ofnæmi fyrir kúamjólk svo ég gat nú aldrei látið reyna á þetta. En hann varð þó sjaldan veikur.
En þetta segja sumar kjellingabækur.
Kveðja
Þórdís

Sigga Lára sagði...

Já, ég hef tekið eftir því að kúamjólkin sé slímaukandi, en yfirleitt ekki fyrr en kvefið er komið. Er farin að láta Gyðu drekka líka stoðmjólk, ef hún er til, en er bara nýbyrjuð á því svo ég veit ekki ennþá um árangurinn.

Hugrún sagði...

Já mér fannst hún Gyða afskaplega föl hjá mér á laugardag þótt hún væri hress. Ég get látið þig hafa mixtúru sem ég fékk erlendisfrá þegar við hittumst á sunnudag hjá Siffa. Er sjálf í flensu og fer ekki úr húsi til að vera hress á föstudag en þá er jólamatur.

Nafnlaus sagði...

Anda inn - anda út. Það er eina ráðið. Hugsa til þess að bráðum verður þetta fúla pestartímabil over and out. Kannski eftir 3 ár eða svo ... má bjóða þér upp á þann díl? Hafa það bara djöfulli skítt þangað til og hirða upp allar pestir vírusa og vini þeirra. Spara þvottapokann og vatnið til að ná nú örugglega allri stórpestarfjölskyldunni.
Hrafnhildur

Elísabet Katrín sagði...

Það á bara að láta börn vera í nógu miklum skít og drullu allt frá fæðingu ;) of mikið hreinlæti styrkir ekki ofnæmiskerfið...mínir strákar hafa alltaf verið fílhraustir, enda er ég löt með eindæmum :)endilega ekki baða barnið of oft ;)

Sigga Lára sagði...

Já, kannski einmitt um að gera að pesta bara eins og vindurinn á meðan við erum heimavinnandi/námandi til skiptis svo við verðum ekki rekin úr vinnu út af þessu?
Kannski ekki alvitlaust...

Blogger segir "farast". Það finnst mér fyndið.