3.12.08

10!

Hraðbáturinn er 10 mánaða í dag. Hann er ennþá mjög rólegur og duglegur að dunda sér en er líka kraftmikill og er farinn að skríða og hífa sig upp við allt sem fyrir verður. Svo gengur hann út um allt og ýtir stólum, dótakössum, þvottabölum og öðru á undan sér. Ég á nú samt ekki von á að hann fari að labba fyrir jól. 

Hann kemur alltaf á fleygiferð ef uppþvottavélin er opin og reynir að komast inn í hana. Honum finnst fátt skemmtilegra en að fikta í hurðum og öðru sem hann getur klemmt sig á. Svo teygir hann sig upp á píanóið og spilar oft heilmikið á það. Eitt af því allra skemmtilegasta er að ná í DVD-myndirnar og dreifa þeim út um allt og stundum eru bækurnar úr bókahillunum á ganginum líka komnar út um allt gólf. 

Hraðbátur er mikill bókaormur eins og hann á kyn til og getur setið langtímunum saman og flett bókum. Þá ekkert endilega barnabókum. Og frá því að hann var pínulítill hefur verið eitt besta huggunarráðið að standa með hann fyrir framan bókahillurnar. Hann var farinn að brosa og hjala framan í bækurnar eins og hann væri að tala við fólk, mjög snemma.

Hraðbátur er mjög hændur að systkinum sínum og þau Freigátan eru oft mjög dugleg að leika sér. Stundum veit maður ekkert af þeim, lengilengi. (En veit þá um leið að verið er að rusla vel og rækilega til einhversstaðar.) Þeim Smábáti kemur líka mjög vel saman og þeir eru alltaf tveir heima á morgnana á meðan ég skrepp með Freigátuna yfir götuna, á leikskólann.

Ég er að fara með hann í 10 mánaða skoðun á morgun. Vonandi koma eyrun vel út úr henni, en stúfurinn er á síðustu dögum pensillínkúrs tvö á mjög stuttum tíma. Hann hefur sofið svolítið illa undanfarna daga og ég held að honum sé illt í maganum út af meðalinu.

Til hamingju með afmælið, Friðrik Hraðbátur.

4 ummæli:

Elísabet Katrín sagði...

Til lukku með liltla krúttið :) dúllidúll :)

Nafnlaus sagði...

Til lukku með drenginn.
Ég fékk fyrir minn eyrnadropa hjá Kollu grasa. Þeir virkuðu vel og fara ekki illa í magann þar sem þeir eru bara settir í eyrun. Mæli eindregið með þeim fyrir svona stubba, þ.e.a.s. ef þér er ekki verulega illa við hvítlaukslykt.
Kveðja
Þórdís

Berglind Rós sagði...

Til hamingju með daginn kútur, vonandi er þér batnað í eyrunum og vonandi lagast maginn fljótt. Svo er ábending frá Guðmundi Steini, það er rosalega gaman að opna DVD hulstur, plokka diskana úr og dreifa þeim út um allt, þeir glansa svo skemmtilega og svo heyrast rosa skemmtileg hljóð í mömmu og pabba. Það er pínu erfitt, en vel þess virði! :-Þ

Siggadis sagði...

Til hamingju með Hraðbátinn - hann ætlra greinilega að vera mikill gáfu- og hæfileikamaður eins og honum ber kyn til :-) Knús í kotið!