Það getur vel verið að Sumarljós og svo kemur nóttin sé ágætisbók.
En næst þegar, í upphafi leiksýningar, telst ástæða til að segja mér að "leikurinn gerist í litlum bæ" ætla ég að gera sjálfri mér greiða og fara heim til mín og gá hvað er í sjónvarpinu.
Hvað gengur mönnum til með þetta eilífðar smáþorp? Þar sem "allir þekkja alla" (og hafa áhuga á því sama) og flestir eru kallaðir starfsheitum sínum með greini?
Það þekkja aldrei allir alla. Sama hvort samfélagið inniheldur hundrað manns eða milljón. Það vilja aldrei allir þekkja alla. Menn velja sér alltaf samfélag. Og umgjörðin "sona týpískt íslenskt sjávarþorp" verður aldrei hvorki trúverðug né áhugaverð í sjálfri sér. Og að í plássinu sé engin kirkja, staðreynd sem kynnt er til sögunnar og síðan ekkert meira gert með, gerir ekkert fyrir pleisið. Ja, nema þá kannski helst að með heiðni samfélagsins sé unnið. Eins og til dæmis er gert í kvikmyndinni The Wicker Man.
Og hvar í andskotanum er tilgangurinn með því að hefja leikritið á einhverjum klisjukenndum náttúru- og mannlífslyfirferðum sem síðan kemur innihaldi verksins ekki rassgat í bala við. Ef það kallast þá innihald að hundavaða í gegnum þetta "dæmigerða smáþorp" og káfa flausturslega inn í nokkra misóáhugaverða söguþræði? Það dramatískasta sem gerðist var að hundur og fjölskylda voru skotin og grafin. Og maður vissi ekki af því fyrr en eftirá.
Leikmyndin var ekkert ljót. Leikurinn var ekkert slæmur. En ég nenni ekki kaupa mig inn til að að horfa á fólk í vinnunni.
Ég eyddi fyrstu 19 árum ævi minnar í "smáþorpi" og upplifði þar aldrei þrjá jafnleiðinlega klukkutíma í röð og undanfarna þrjá.
Salurinn var næstum fullur af fólki sem nennti varla að klappa að sýningu lokinni. Það er nú gott að almannafé skuli vera að fara í eitthvað uppbyggilegt, á krepputímum. Ég er helst á því að rækilega mætti skera niður með því að leggja niður Þjóðleikhúsið sem stofnun. Ráða í bygginguna nokkra húsverði sem hefðu það eitt á sínu starfssviði að ganga um með lyklakippur og hleypa inn leikhópum sem haldnir eru leikhúsgreddu og sköpunarþrá og telja sig hafa eitthvað fram að færa og tjá. Nóg er til.
2 ummæli:
Sumarljós (bókin) er æði. En hún er púra frásögn, nákvæmlega ekkert dramatískt við hana og virkar vel í því formi. Ég einmitt hváði þegar ég heyrði að það ætti að gera leiksýningu upp úr henni. En takk, þá sleppi ég þessari:) En ég skal lána þér bókina ef þú vilt.
Elskuleg, hafðu þúsund og fimm þakkir fyrir öndvegiskrufningu á líkinu. Tek svo undir með Gumma, bókin var dáindisgóð og ekkert upp á Jón Kalman Stefánsson að klaga.
Skrifa ummæli