24.1.09

Utanþingsstjórn

Ég er ekki að mótmæla vegna þess að mig langar í holla hreyfingu og útivist. Ég er að mótmæla vegna þess að ég treysti ekki ríkisstjórninni. Ég treysti henni meira að segja svo illa að þó búið sé að kasta fram dagsetningu sem formenn stjórnarflokkanna ætla að ræða um helgina get ég ekki litið svo á að þar með sé búið að boða formlega til kosninga. Þessir tveir formenn hafa undanfarið verið algjörlega úr takti við sína flokka sem og þjóðina alla, hvað svo sem liggur að baki, svo ég þori engu að spá um niðurstöður þeirra viðræðna.

Ég finn mig hallast meira og meira að kostum þess að utanþingsstjórn verði sett fram að kosningum. (Og 9. maí held ég að gefi fólki ágætistíma til að skipuleggja sig. Gömul framboð sem ný. Þó mér finnist 4. apríl flottari kjördagur... en það er nú af persónulegum ástæðum.)

Ég held að hræðsla fólks við utanþingsstjórn byggi á þeim misskilningi að þingmennska undirbúi menn fyrir ráðherraembætti. (Í því held ég allavega að minn misskilningur hafi legið.) En nú er ég farin að hallast að því að þingseta og pólitíkurþref almennt undirbúi menn fyrst og fremst í því að þekkja flokksgæðingana frá almúganum og vita hverjum skuli hygla. Ég held að við þurfum ríkisstjórn skipaða fagmönnum sem hvorki hefur að að leiðarljósi að moka yfir mistök undanfarinna ára né klekkja á pólitískum andstæðingum með þeim. Menn geta mokað og klekkt niðri á þingi, alveg eins og þeim sýnist, en í ráðuneytunum þarf að vinna öflugt hreinsunar- og uppbyggingarstarf sem má síst felast í því að méla niður restina af velferðarkerfinu.

Þeir sem gagnrýna þessar hugmyndir vilja meina að aðrir en sitjandi ráðherrar séu ekki nógu vel "inni í málunum." Mér hefur nú ekki sýnst sitjandi ráðherrar vita neitt í sinn haus, margir hverjir. Að Jóhönnu Sigurðardóttur undanskilinni. Og "málum" er mörgum hverjum haldið svo rækilega leyndum fyrir þjóðinni að maður spyr sig, oft á dag, hvers vegna þau þoli ekki dagsins ljós. Hinar þokukenndu "björgunaraðgerðir", sem ekki sjást í þjóðfélaginu, fremstar í flokki.

En við þurfum líka fullskipað þing. Þingmenn sem sitja þingfundi og vinna í þingnefndum. Ráðherrar þurfa á sama tíma að vinna fulla vinnudaga í sínum ráðuneytum. Ef þeir eru að gera gloríur eiga þær að stoppa í þinginu. Ekki afgreiðast blindandi vegna þess að viðkomandi ráðherra er í sama flokki og Pétur en ekki Páll.

Þess vegna verður appelsínuguli gallinn dreginn upp í dag og hávær búsáhöld til að stompa með!
RÍKISSTJÓRNIN ER ENNÞÁ BULLANDI VANHÆF!
Austurvöllur kl. 15.00

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú hefur bæst við að skilanefnd Glitnis hafði ekki hugmynd um hugsanleg hagsmunatengsl í Noregi þegar útibú þar var selt (http://mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/01/24/glitnir_asa_var_seldur_sparisjodum_a_undirverdi_vis/) - og maður spyr sig við hvað skilanefndirnar vinna dag og nótt.

Ég sá þig ekki í gær á Austurvelli en ég sá iðandi myndavél á suðurgafli Landssímahússins. Hún var hið vökula auga stóra bróður því að svo virðist sem forgangsröð valdhafa sé verulega frábrugðin forgangsröð þess almennings sem ég er - tala náttúrlega ekki fyrir þjóðina.

Ég þekki góða konu sem ávallt hefur kosið Sjálfstæðisflokkinn. Hún hnussaði í mín eyru nýlega og spurði hvort ég treysti virkilega *** (man ekki hvern hún nefndi) fyrir fjármálum ríkisins og ég sagðist halda ekki, nei. Spurði hana svo hvort henni fyndist Árni (ekki rannsóknarskipið) hafa farið vel með peninga ríkisins. Hún hnussaði jafn stórt nei og varð svo dálítið heimóttarleg á svip.

Það eru ótrúlega margir enn hræddir við hið óþekkta þótt þeir þekki hið þekkta ...

Hafðu svo kæra þökk fyrir að gera mér rórra á þessum sunnudagsmorgni, kæra Siggalára.