Þetta fer að verða eins og desjavú.
31.1.08
Ofboðslega ertu alltaf lengi að þessu
sagði Rannsóknarskip á leið út úr mæðraskoðun. Ljósmóðirin spáði allavega hálfum mánuði til viðbótar af óléttu. Sem þýðir að minnsta kosti vika framyfir.
Hvíla sig...
Ætlaði að nenna í skólann í dag en þorði ekki út í hálkuna og vindinn þegar til átti að taka. Svaf í staðinn fram að hádegi. Og það var nú gott. En það gerist víst ekki mikið á meðan maður liggur í hreyfingarleysi, svo ég er að huxa um að demba mér í að taka til í slatta af skúffum. Verkefni sem mig er lengi búið að langa til.
Svo er víst mæðraskoðun seinnipartinn og hún Dagný segir vonandi eitthvað sniðugt, spaklegt, jákvætt og líklegt.
Annars var ég að frétta að þorrablót Eyfirðinga í Freyvanginum verði haldið laugardaginn 9. febrúar. Freigátan fæddist einmitt klukkan 18.00, á blótsdag og var heitasta kjaftasagan á blóti 2006. Sverrir mágur heyrði meira að segja bara af henni, svona utan af sér, þar. Nú er 9. einmitt dagurinn eftir ásettan, útlit er fyrir að Smábátur verði í norðrinu, amma-Freigáta verður sennilega alveg komin í startholurnar að koma til okkar og Hugga frænka hefur sjálfsagt gaman af að passa svona eina laugardagsstund. Ef hún verður ekki þunn.
Svo afmælisdagur Rannveigar Þórhalls er mjög afgerandi á planinu. Enda er hann enn ásettur, samkvæmt teljaranum, sem ég nennti ekki að leiðrétta eftir að sónarinn flýtti ásetningnum um einn dag.
Er annars komin með verki. Þeir eru alveg reglulegir, á svona 12 til 72 klukkutíma fresti og standa yfir í svona hálfa til eina mínútu... Hvað ætli sé þá langt í fæðingu? Mánuður?
En obbslega er nú gott þegar maður er búinn að vera duglegur að sofa.
Mmmmmm.
30.1.08
Duglega stelpan
Í morgun fór ég með Freigátuna á leikskólann í fyrsta skipti í langan tíma. Rannsóknarskip er annars alveg kominn með það verkefni í bili. Áður en það gerðist var hún orðin svona sæmilega sátt við að vera skilin eftir það, flesta morgna. Í morgun benti hún hins vegar bara á munninn á sér og sagði "yssa", vinkaði bless og skálmaði svo inn að hjálpa deildarstjóranum að leggja á borðið fyrir morgunmatinn. Móðurhjartað var næstum sprungið úr stolti.
Annars er ekkert nýtt. Ég er búin að djöflast við eitthvað þýðidót, síðasta jógatímann og bumbusund og mátti ekkert vera að því að leggja mig. Og er ógurlega sybbin og þreytt.
Og svona á maður nottla alls ekki að haga sér, þegar maður gæti lent á fæðingardeildina hvaða nótt sem er.
(En ég þarf nú samt eiginlega að gera það aftur á morgun. Skóli og fundur og mæðraskoðun og svona.)
29.1.08
Hmmm.
Er að horfa á Mamet-mynd með hitt augað á leslistunum fyrir það sem ég er að þykjast vera að læra. Kannski þarf ég að horfast í augu við það að ég klári ekki allt sem ég er skráð í...
Hmmmm...
Á hinn bóginn er það allt í lagi. Ég á einingar frá síðustu önn sem lánasjóðurinn vill víst alveg taka mark á þeim seinna. Og svo get ég fengið ívilnun vegna barneignar. Svo er ég að fara að fá algjörlega aðrar auka-aukaeiningar fyrir verkefni í sumar. Sem ég þarf líklega ekki að nota.
Jájá. Vottever. Allt í fína.
Annars er ég eitthvað ferlega geðvond inni í mér og skrítin. Kannski er ég bara að fara að eignast barn, einhverntíma á næstu vikum. En mér finnst ég vera að af-óléttast. Ég er ekki lengur jafn hreyfihömluð (enda er tognunin sem ég var með í rifjunum öll að verða bötnuð), ég léttist bara og er öll að afbjúgast eftir jólin og þessir fínu fyrirvaraverkir sem ég var farin að fá eru alveg hættir að láta á sér kræla.
Þetta var kannski bara alltsaman ímyndun?
Kannski er ég bara svona feit?
Ríki anns
Var að gera dagskipulag fyrir komandi verkefni, skrif, lær, þýð og ýmsar útréttingar, eitthvað fram í tímann. Fattaði allt í einu að ég var komin fram yfir 20. febrúar og var ekki búin að gera ráð fyrir svo mikið sem klukkutíma til að, til dæmis, skreppa á fæðingardeildina og eiga barn. Eða tíma til að jafna mig eftir það. Við Bára vorum að reyna að koma á einum verkefnisfundi á meðan hún verður á landinu, sem er alla næstu viku, og tóxt með herkjum að finna einhvern einnoghálfan tíma einn daginn, milli skóla og mæðraskoðunar hjá mér.
Ég þarf að þýða í allan dag, svo þetta verður ekki dagurinn sem ég gríp réttri hendi í feita rassinn á mér og fer að reyna að gera einhverja skólavinnu.
Og mig sem langar ekki að gera neitt nema leggja mig og hreiðrast.
Ég þarf að þýða í allan dag, svo þetta verður ekki dagurinn sem ég gríp réttri hendi í feita rassinn á mér og fer að reyna að gera einhverja skólavinnu.
Og mig sem langar ekki að gera neitt nema leggja mig og hreiðrast.
28.1.08
Alvöru afmæli
Akkúrat núna eru akkúrat 2 ár síðan það var akkúrat örugglega verið að sauma mig saman eftir hina bráðskemmtilegu fæðingu Freigátunnar. Það var nú gaman. Akkúrat þá leið mér allavega alveg ferlega vel. Hætt að pínast og öll í dópinu bara.
Freigátan skemmti sér svakalega vel á leikskólanum á afmælisdaginn, fékk kórónu og svo var haldinn dansleikur, þar sem hún ku vera fræg á leikskólanum fyrir að bresta gjarnan í söng og dans, í tíma og ótíma.
Í dag hefur eftirfarandi uppgötvun verið gerð:
Ef maður potar sér í bikini, kominn 38 og hálfa viku á leið, þá gerast undarlegar sjónhverfingar. Bumban verður alveg svo riiiisastór að manni finnst rassinn á manni minnka um allan helming í samanburðarhlutföllum. Zzzexí!
Og dagurinn sem átti að verða svo ógurlega bissí að hann átti helst að koma af stað fæðingu varð það bara alls ekki. Mæðraskoðun frestaðist fram á fimmtudag, var útskrifuð úr sjúkraþjálfun nema eitthvað einstaklega óheppilegt komi uppá, jógatíminn var kjaftatími, svo að eftir sundið var ég ekki með einn einasta fyrirvaraverk, einusinni.
Freigátan fær því að eiga afmælisdaginn sinn í friði og mér finnst líklegt að það verði nú allavega vika eða tvær á milli. Sennilega fá þau bara alveg að eiga sitt hvora afmælisveisluna þegar fram líða stundið.
(Ég segi þau, það er nefnilega búið að segja mér svo oft að ég sé með strákabumbu. Rannsóknarskip sagði um daginn, og ég held ég verið bara að taka undir það:
"Ég hugsa að ég verði aftur jafnhissa ef það kemur stelpa."
Við erum ekki sérlega fljót að læra...)
27.1.08
Ammli

Freigátan á afmæli á morgun og í dag var haldið örlítið kaffisamsæti fyrir nánustu ættingja hennar á svæðinu og vini. Þar sem Móðurskipið er svo ólétt tóku menn svo rækilega með sér í veisluna af veitingum að mér sýnist við geta bæði skírt og fermt án þess að baka nokkurn skapaðan hlut. Sú stutta eignaðist eitt og annað í tilefni daxins. Fyrstu dúkkuna sína í barbíforminu, dúkkuföt, leir, fisher præs landbúnað, púsl og ýmis föt. Til dæmis stígvél með hauskúpum á. Það er búið að leika sér vel og rækilega með alltsaman, máta fötin mikið, leira, púsla og borða. Enda er hin næstum tveggja ára snót nú orðin uppgefin og er á leið í bólið, núna bara í fréttunum.
Svo er bara galið veður. Og hvert fór snjórinn?
Móðurskipið ætlar að reyna að taka því einstaklega rólega í kvöld, enda svaka bissí dagur á morgun. Mæðraskoðun, sjúkraþjálfun, jóga og sund. Vonandi verður búið að hlýna enn meira, því allavega helminginn af þessu þarf ég að fara gangandi og nenni síst að vera fljúgandi á hausinn á þessu stigi málsins. Sérstaklega nú þegar ég er öll að hætta að vera hreyfihömluð, farin að geta hlegið og næstum hóstað pínu án þess að finnast ég vera að fara úr rifjunum. Er komin með kenningu um að einn "rif"-vöðvi hafi verið tognaður. Og hafi því ekkert verið að batna á meðan ég var alltaf að reyna að hita hann upp og teygja hann. Heldur bara þegar ég fór að hvíla og kæla hann. Svona er þetta. það er víst ekki hægt að laga alveg allt með líkamsþjálfun.
Úff hvað maður er sybbinn. Best að borða meiri súkkulaðiköku.
PS. Nei, annars. Freigátan er greinilega þeirrar skoðunar að hún sé orðin unglingur og vill fá að vaka frameftir og halda partí. Hún liggur allavega enn syngjandi hástöfum í rúminu sínu, og klukkan orðin meira en níu. Held hún sé meira að segja búin að svæfa pabba sinn. Það verður gaman að reyna að koma henni á lappir uppúr sjö á sjálfan afmælisdaginn...
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)