Í morgun fór ég með Freigátuna á leikskólann í fyrsta skipti í langan tíma. Rannsóknarskip er annars alveg kominn með það verkefni í bili. Áður en það gerðist var hún orðin svona sæmilega sátt við að vera skilin eftir það, flesta morgna. Í morgun benti hún hins vegar bara á munninn á sér og sagði "yssa", vinkaði bless og skálmaði svo inn að hjálpa deildarstjóranum að leggja á borðið fyrir morgunmatinn. Móðurhjartað var næstum sprungið úr stolti.
Annars er ekkert nýtt. Ég er búin að djöflast við eitthvað þýðidót, síðasta jógatímann og bumbusund og mátti ekkert vera að því að leggja mig. Og er ógurlega sybbin og þreytt.
Og svona á maður nottla alls ekki að haga sér, þegar maður gæti lent á fæðingardeildina hvaða nótt sem er.
(En ég þarf nú samt eiginlega að gera það aftur á morgun. Skóli og fundur og mæðraskoðun og svona.)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli