5.2.08

Gestir og pestir

Allt í einu eru börnin orðin alveg gríðarlega mörg! Reyndar erum við með liðsauka þessa viku, Amma-Freigáta er í heimsókn og Hugga móða er líka dugleg að hjálpa til. En á venjulegum degi í náinni framtíð verða börnin komin í meirihluta á heimilinu. Og karlmennin líka. É'v'tekki hvar þetta endar eiginlega.

Annars eru líka hálfgerð skörð í uppalendahópnum. Rannsóknarskip var lasinn í dag, en er nú allur að skríða saman. Enda má eiginlega enginn fullorðinn verða veikur hér svona næstu... fimm árin, eða eitthvað. Nema auðvitað að liðsauki væri á svæðinu.

Dagurinn er annars búinn að vera ágætur. Hraðbátur sefur og sefur og ég þarf að vekja hann til að borða. Enn sem komið er vill hann reyndar helst sofa í föngum fólks. En þessa dagana eru margir boðnir og búnir. Sem þetta skrifast liggur hann til dæmis grjótsofandi á bringunni á mér.

Freigátan er ógurlega hrifin af nýja fjölskyldumeðlimnum og hló svakalega í morgun þegar hún sá hann vakandi í fyrsta skipti. En svo vill hún fá hann með að púsla og leira og það er ekki alveg áhugi fyrir því ennþá hjá litla sofandanum. Það getur valdið minniháttar pirringi.

Fólk er alltaf að segja mér að leggja mig. En ég er hreint ekki nógu dugleg við það. Það er víst alltaf eitthvað sem maður getur verið að gera. En litli ætlar að vera rólegur og sofa aftur vel í nótt svo ég fái nóg að hvíla mig þá. Annars er ég bara ferlega hress og ekkert mikið eins og ég hafi verið að eiga barn í fyrradag. En maður verður víst að passa að taka öllu með ró, svona allavega á meðan brjóstagjöf er að komast almennilega í gang og svona.

Og hríðakveðjur til Siggudísar sem ku eiga að þrusa af stað í fæðingu með öllum ráðum í síðasta lagi annað kvöld.

4.2.08

Ofurlítill Hraðbátur


Já, það er nú fyrst í fréttum að það er bolludagur, og ég er akkúrat hætt að vera bolla! Eins og áður sagði spýttist Ofurlítil Duggan í heiminn, öllum að óvörum, í gærmorgun, og reyndist vera karlkyns og fær því Bloggnefnip Hraðbátur. (Sem á -örugglega oft eftir að verða mikið öfugnefni þar sem hann sýnir þess strax greinileg merki að hafa lyndiseinkunn Rannsóknarskips. Rólegheitamaður, sem sagt.)

Úrdráttur úr fæðingarsögu:
Eins og sást á misvísandi færslum frá kvöldi og nótt 2. - 3. feb. bar sóttin heldur brátt að. Þrátt fyrir einhverja fyrirvaraverki dagana áður, þá áttum við nú ekki neitt von á barninu í heiminn strax. Alla fæðinguna og dvölina í Hreiðrinu var að rifjast upp fyrir mér fleira og fleira sem enn er týnt í geymslunni, óþvegið, óleyst skipulaxmál, og þannig. Amma-Freigáta kemur í kvöld og verpur hjá mér hérna út vikuna, og mér súnist bara verða nóg að gera hjá okkur vip fæðingarundirbúning.

Allavega. Við vorum mætt uppá fæðingardeild um 2-leytið um nóttina. En við skoðun kom í ljós að það var ekkert að gerast (hálfur í útvíkkun), þrátt fyrir brjálaða verki á 3 mínútna fresti. Ljósmóðurinni þóttu þessir verkir þó of miklir til að geta verið plat (auk þess sem ekkert var að gera hjá þeim) þannig að við vorum sett á "hóld" fengum að bíða og sjá til í tvo tíma til ap gá hverju yndi fram. Máttum alveg fara fram og horfa á sjónvarpið eða labba um en ég hafði nú ekki alveg heilsu til þess, þannig að við vorum bara inni á fæðingarstofu þar sem ég rölti á milli verkja og ruggaði mér í mjöðmunum og Rannsóknarskip stóð sig vel í verkjanuddi og dottaði á milli.

Klukkan 5 var tékkað á málunum og þá var nú alveg eitthvap smá að ske (3 í útvíkkun) svo við vorum formlega innrituð í fæðingu og ég fékk að fara í bað. Við vorum á stofu með riiiisastóru baði og það var ofboðslega þægilegt ap svamla í því. Svona framanaf. Sóttin fór þó hratt vaxandi og um sjöleytið vældi ég í örvæntingu á ljósmóðurina "fer þetta ekki að verða búið?" En miðað við fyrri reynslu vorum við Rannsóknarskip auðvitað viss um að við ættum einhvern hálfan sólarhring eftir.
Ég fór uppír af því að mér var orðið heitt og óglatt og í ljós kom að allt var bara tilbúið til útspýtingar og snáðinn var fæddur 24 mínútum síðar.


Svona var nú mamman sæt, alveg nýborin

Við vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið.
Það fyndna er að eftir hina martraðarkenndu fæðingu Freigátunnar spratt ég upp og var tilbúin að fara að skipuleggja næsta erfingja. Eins og ekkert væri. Þetta yrði allavega aldrei verra næst. Rannsóknarskip var hins vegar harður á því að næst yrði fyrirframpantaður keisari, ef samningar næðust um frekari barneignir á annað borð. Sem var sko ekkert víst.
Núna væri Rannsóknarskip til í að ég fæddi hálft fótboltalið í viðbót. Ég er hins vegar til í að ræða ættleiðingu, ef okkur langar í fleiri, eftir einhver ár. Sennilega vegna þess að þetta var jú líklega eins "þægileg" fæðing og hægt er að huxa sér... Og ég jógaði hana þvílíikt og ljósmóðurinni þótti við ótrílega flínk og hún þurfti næstum ekkert að gera, það þurfti næstum ekkert að sauma og engin verkjalyf eða neitt. (Ég hafði ekki einu sinni tíma til að læata mér detta verkjameðferðir í hug.)
En þetta var nú samt frekar óþægilegt og í dag er ég ekki alveg viss um að ég nenni aftur...
athugum nú samt að drengurinn er víst bara fæddur í gær.


Og svona lítur hann út

Allavega, allt hefur gengip eins og í lygasögu síðan. Við fórum í Hreiðrið í gærmorgun og þar voru feðgarnir ógurlega duglegir að sofa í allan gærdag. Ég var ekki alveg jafndugleg, hafði of mikið að gera við að liggja og horfa dolfallin á nýja sköpunarverkið. Greinilegt að þeir púluðu meira í fæðingunni en ég. Enda er það bara líklegt.

Ekki fannst okkur nú auðvelt að sjá hverjum snáðinn væri líkur, svona allavega til að byrja með. En á myndunum sýnist okkur hann nú bara vera nokkup líkur Freigátunni, eins og hún leit út þegar hún fæddist. Annars er hann ennþá með "kónhed", var lengi skorðaður með hnakkann á undan, eins og hann átti að vera, og er enn með smá bjúg í kringum augun. Svo svipmót er enn óljóst.



Bára frænka náði að koma í Hreiðrið og sjá frændann áður en hún fór aftur til útlanda. Athugist að Hraðbátur er í pólitískt röngum galla í eigu ríkisspítalanna.

Hann er annars búinn að vera duglegur að drekka á milli blunda, pissa kúka og prumpa og við erum á undan áætlun með brjóstagjöfina. Hann er líka búinn að pissa á bæði mig og pabba sinn og yfir næstum öll hrein föt sem hann átti. Núna sefur hann á sitt græna.
Við komum sem sagt heim í morgun, svo Smábáturinn hitti gripinn í fyrsta sinn þegar hann kom heim úr skólanum og Freigátan þegar hún kom úr leikskólanum. Hann sló alveg í gegn hjá þeim báðum. Freigátan ætlaði ekki að fá nóg af að klappa honum og kyssa og pota í nebbann, eyrun, tásurnar og allt hitt sem hann er með. Það ber ekki á því að hún sé afbrýðisöm út í hann, en hann er reyndar búinn að sýna henni þá tillitssemi að sofa nánast allan tímann sem hún er búin að vera heima. (Ég er tortryggin og hef hann grunaðan um að vera að skipuleggja að halda móður sinni rækilega vakandi í nótt.)

Sætu systkinin
Þannig er nú það. Mér finnst svakalega skrítið að vera allt í einu ekki lengur í bumbusundi og er alltaf að muna eftir fleiru og fleiru sem ég þarf að afpanta. Mæðraskoðun, meðgöngunudd og fleira. Ég fattaði líka að sennilega væri ég ekki að fara að mæta í skólann á morgun...
Allir eru annars fínir til heilsunnar, nema svolítið sybbnir.
Myndskreytingar eru frá síðasta einum og hálfum sólarhring.

Barn er oss fætt

Sonur er oss gefinn.

Fæddist í gærmorgun kl. 07.24. 13 merkur og 48,5 cm.

Vorum að detta inn heima hjá okkur. Myndir og meiri smáatriði síðar, þegar ég hef afnot af báðum höndum.

3.2.08

Eða jú annars...

Allt fór á milljón um miðnættið og núna, 01.40 eru svona 2-3 mínútur "á milli".

Mér finnst þetta nú vera að gerast grunsamlega hratt, og bíð eiginlega bara eftir að þetta gangi alltsaman til baka, en við ætlum nú samt að skreppa upp á deild... til öryggis.

Tónskáldið er á leiðinni og ætlar að standa vaktina þar til afi og amma Smábátsins koma brunandi úr sumarbústaðnum, hvaðan við ræstum þau út, með látum.

(Auðvitað áttum við ekkert von á öðru en að ganga 2 vikur framyfir, eins og síðast.)

Mar er ekki einu sinni kominn á tíma!

Meira síðar. Vonandi bara miklu meira.

2.2.08

Neibb - ekkert mikið að gerast

Verkir eru svo sem farnir að láta á sér kræla, en þeir koma og fara og hverfa stundum alveg og ég get alveg sofið fyrir þeim og ku geta hagað sér svoleiðis vikum saman. Skemmtilegt.
Freigátan er öll að skríða saman, og er núna að hamast við að vilja alls ekki fara að leggja sig og heldur nú tónleika og aðra skemmtan í rúminu sínu fyrir aumingja föður sinn sem er að reyna að leggja sig.

En mig langar bara að sofa og sofa. Og vakna kannski til að fara á fæðingardeildina.

Hér eru svo nokkrar hrroðalega sætar myndir frá afmæli Freigátunnar á leikskólanum:



1.2.08

Veikindi ... ?

Já, allt er greinilega að verða ferlega mikið eins og venjulega. Freigátan veiktist í gærkvöldi og nótt og er komin með heilmikið hor og uppundir 40 stiga hita. Móðurskipið átti ekki annars úrkosti en að fresta nuddtímanum, skrópa í bumbusundið og vera heima að snýta. Svaf annars sjálf ferlega lítið í nótt vegna öflux brjóstsviða og er búin að vera með einhverjar magapínur af og til í dag... en þar sem ljósmóðirin SAGÐI í gær að það væri ekkert að draga neitt til tíðinda þá trúi ég henni bara. Ég er kannski með einhverja samúðarverki með Siggudís, sem ku vera eitthvað kannske að mjakast af stað.

Gat allavega alveg lagt mig áðan og sofið heillengi eins og grjót, en allt fór reyndar aftur á fullt þegar ég fór aftur á stjá.

Spurnig hvort maður á að vera á stjái og ímynda sér að það sé að koma barn eða halda kyrru fyrir og halda að þetta cé magapína?
Hjálpar til við ákvarðanatöku að ég nenni eiginlega ekki að hreyfa mig neitt. Bezt að leggja sig bara aftur og melta pulsurnar.

Og Fljótsdalshérað ku ætla að mala Skagfirðinga í hallærislega spurningaþættinum í sjónvarpinu í kvöld.

31.1.08

Hinn ósýnilegi karríer?

Einu sinni var kona sem hét Sarah Kane. Hún skrifaði 4 leikrit og hengdi sig síðan í skóreimunum sínum þegar hún var 28 ára, þrátt fyrir öfluga sjálfsmorðsvakt.

Þegar ég var 28 ára og búin að skrifa um það bil 4 leikrit fór ég á leikritunarnámskeið á hátíð sem heitir Bonner Biennale. Sem ég held að sé síðan flutt til Wiesbaden. Kennari á námskeiðinu var serbneska skáldkonan Biljana Srbljanović. (Eitt af því erfiðasta sem ég lærði var að stafa nafnið hennar.) Áðan gúgglaði ég henni. Komst að því að hún er með blogg. Því miður á serbnesku. En greinilega mjög mergjað, þar sem hún er búin að fá yfir 400 komment á færsluna sína frá í gær.

Tvö verk Söruh Kane voru til sýnis á hátíðinni, Crave og Psychosis. Mér fannst Psychosis betra, nema það hefði mátt enda aðeins fyrr. (Nánar tiltekið eftir orðið "swallowed". Kaldunski var sammála mér, ef ég man rétt.) Reyndar er ekkert víst að það hafi verið tilbúið, það fannst að höfundinum látnum og var ekkert breytt.

Við veltum þessari konu mikið fyrir okkur. Lífi hennar og dauða. Elena Krüskemper, framkvæmdastjóri hátíðarinnar sem var mikið með okkur, sagði að Kane hefði framið sjálfsmorð af því að hún var hrædd við dauðann. Mér fannst kenningin að menn reyndu að taka stjórnina á því sem þeir væru hræddastir við, meika alveg dáldinn sens. Kannski eru sjálfsmorð frekar framin að hræðslu við dauðann en lífið.

Á undan mér voru búnir að fara á höfundanámskeið á þessari hátíð menn eins og Árni Ibsen, Ólafur Haukur, Bjarni Jónsson og Andri Snær. Á eftir mér held ég að Jón Atli og Þórdís Bachmann séu búin að fara. Ég held ég sé örugglega eina íslenska leikskáldið sem hefur farið á þetta námskeið sem hefur tekist að verða ekki einu sinni ponkulítið fræg. Hef einungis haft uppúr þessu pínulítið og obskjúr neimdropp. Og sennilega ekki nema handfylli af fólki á landinu sem þykja nöfnin sem ég droppa rímótlí merkileg.

Þangað til kannski núna!

Í mars verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu verkið Engisprettur eftir áðurnefnda Biljönu Srbljanović. (Og Þjóðleikhúsið notar einhverja íslenskaða stöfun á nafninu hennar sem ég harðneita að nota þar sem ég hafði mikið fyrir að læra að stafa það rétt á sínum tíma.)

Og Elena Krüskemper er að stýra alþjóðlegu leiklistarhátíðinni Lókal. Sem er líka í mars. Sem er hins vegar EKKI fyrsta alþjóðlega leiklistarhátíðin á Íslandi eins og einhvers staðar var haldið fram. Man ekki betur en að ég sé búin að vera með í að halda allavega tvær.

Nú fer ég sem sagt bráðum kannski að geta neimdroppað af einhverju af aðeins meira viti, þannig að örlítið fleiri sjái kúlið í því. (Nema nottla að allt draslið floppi hrapallega og fái gagnrýnendur og aðra áhorfendur til að urra, hlæja og benda.)
Og kannski verð ég síðan jafnfræg og fyrirrennarar og eftirfarendur mínir í vörksjoppinu...?
Eða kannski gerist það ekki nema maður hætti að reyna að gera fimm hluti í einu og reyni að vera "bara" Leikskáld með stóru Elli.

Jæja, var allavega á fundi með Tónskáldinu sem ætlar að vinna með mér Leikritið fyrir Atvinnuleikhúsið sem ég er búin að taka að mér að skrifam í hjáverkum fyrir vorið.
Þetta er greinilega allllveg að koma...