31.1.08

Hinn ósýnilegi karríer?

Einu sinni var kona sem hét Sarah Kane. Hún skrifaði 4 leikrit og hengdi sig síðan í skóreimunum sínum þegar hún var 28 ára, þrátt fyrir öfluga sjálfsmorðsvakt.

Þegar ég var 28 ára og búin að skrifa um það bil 4 leikrit fór ég á leikritunarnámskeið á hátíð sem heitir Bonner Biennale. Sem ég held að sé síðan flutt til Wiesbaden. Kennari á námskeiðinu var serbneska skáldkonan Biljana Srbljanović. (Eitt af því erfiðasta sem ég lærði var að stafa nafnið hennar.) Áðan gúgglaði ég henni. Komst að því að hún er með blogg. Því miður á serbnesku. En greinilega mjög mergjað, þar sem hún er búin að fá yfir 400 komment á færsluna sína frá í gær.

Tvö verk Söruh Kane voru til sýnis á hátíðinni, Crave og Psychosis. Mér fannst Psychosis betra, nema það hefði mátt enda aðeins fyrr. (Nánar tiltekið eftir orðið "swallowed". Kaldunski var sammála mér, ef ég man rétt.) Reyndar er ekkert víst að það hafi verið tilbúið, það fannst að höfundinum látnum og var ekkert breytt.

Við veltum þessari konu mikið fyrir okkur. Lífi hennar og dauða. Elena Krüskemper, framkvæmdastjóri hátíðarinnar sem var mikið með okkur, sagði að Kane hefði framið sjálfsmorð af því að hún var hrædd við dauðann. Mér fannst kenningin að menn reyndu að taka stjórnina á því sem þeir væru hræddastir við, meika alveg dáldinn sens. Kannski eru sjálfsmorð frekar framin að hræðslu við dauðann en lífið.

Á undan mér voru búnir að fara á höfundanámskeið á þessari hátíð menn eins og Árni Ibsen, Ólafur Haukur, Bjarni Jónsson og Andri Snær. Á eftir mér held ég að Jón Atli og Þórdís Bachmann séu búin að fara. Ég held ég sé örugglega eina íslenska leikskáldið sem hefur farið á þetta námskeið sem hefur tekist að verða ekki einu sinni ponkulítið fræg. Hef einungis haft uppúr þessu pínulítið og obskjúr neimdropp. Og sennilega ekki nema handfylli af fólki á landinu sem þykja nöfnin sem ég droppa rímótlí merkileg.

Þangað til kannski núna!

Í mars verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu verkið Engisprettur eftir áðurnefnda Biljönu Srbljanović. (Og Þjóðleikhúsið notar einhverja íslenskaða stöfun á nafninu hennar sem ég harðneita að nota þar sem ég hafði mikið fyrir að læra að stafa það rétt á sínum tíma.)

Og Elena Krüskemper er að stýra alþjóðlegu leiklistarhátíðinni Lókal. Sem er líka í mars. Sem er hins vegar EKKI fyrsta alþjóðlega leiklistarhátíðin á Íslandi eins og einhvers staðar var haldið fram. Man ekki betur en að ég sé búin að vera með í að halda allavega tvær.

Nú fer ég sem sagt bráðum kannski að geta neimdroppað af einhverju af aðeins meira viti, þannig að örlítið fleiri sjái kúlið í því. (Nema nottla að allt draslið floppi hrapallega og fái gagnrýnendur og aðra áhorfendur til að urra, hlæja og benda.)
Og kannski verð ég síðan jafnfræg og fyrirrennarar og eftirfarendur mínir í vörksjoppinu...?
Eða kannski gerist það ekki nema maður hætti að reyna að gera fimm hluti í einu og reyni að vera "bara" Leikskáld með stóru Elli.

Jæja, var allavega á fundi með Tónskáldinu sem ætlar að vinna með mér Leikritið fyrir Atvinnuleikhúsið sem ég er búin að taka að mér að skrifam í hjáverkum fyrir vorið.
Þetta er greinilega allllveg að koma...

1 ummæli:

Gummi Erlings sagði...

Hei, Kaldunski. Hann er vinur minn.