26.7.05

Skipulagt pirrrrr

Finn mig knúna til að gera játningu. Tímasetningin er m.a. tilkomin af því að hér kom einhver Öjlaklúbbur og vandræðaðist hálfan morguninn en verslaði síðan reyndar fyrir um 10.000 kall, ÚT AF LEIK! Og svo þóttu þeim þeir sjálfir vera ógurlega sniðugir að fatta uppá því að ætla í svona gasalega skemmtilegan "leik" með "klúbbnum" sínum um Verslunarmannahelgina og vildu hest fá afslátt útá það.
Fyrr hefði ég hent þeim niður stigann.
Vegna þess að (og hér kemur hinn sjokkerandi sannleikur):

Ég hef ANDSTYGGÐ á öllu sem kallast getur "organized fun"!

Frá barnæsku hef ég verið lítið fyrir leikreglur. Ef ég spila borðspil þarf ég helst að byggja í kringum það gífurlegan karakter, til að það sé rímótlí skemmtilegt. Þegar ég var lítil hafði ég takmarkaða skemmtum af skipulögðum leikjum, nema þeir sem ég væri að leika við væru þeim mun skemmtilegri. Annars vildi ég helst leika mér í spunaformi. (Sem sást til dæmis á því að barbíleikir mínir og vinkvenna mína fóru á síðustu barbíárunum að leysast mikið upp í óperu- ljóða og söguskriftir.)

Ef ég ætla að stunda félagslegar aðstæður vil ég geta tjáð mig og átt samskipti, frjálst og óháð leikreglum, með öðru fólki sem er jafnfært um hið sama. Af tíma til slíkst er hreinlega alls ekki nóg og verður aldrei. Mér fannst til dæmis alveg dáindisgaman uppi í Heiðmörk um daginn þegar menn komu saman í tilgangsleysi, einhverjir fóru svo að spila blak, aðrir sátu á kantinum og spiluðu á hljóðfæri eða kjöftuðu eða lágu í sólbaði eða hvaðeina. Og enginn sagði "Vertu með". (Ég ÞOLI EKKI þegar svoleiðis er sagt við mig. "Vertu með"! Þó mér sé meira að segja alla jafna vel við viðsegjanda, þá fæ ég andstyggð í allavega 5 mínútur á viðkomandi við þessar aðstæður. Ég vil sjaldan "vera með" og ef ég vil það tek ég þá ákvörðun upp á eigin spýtur.) Hefði hins vegar einhver ætlað að reyna að véla mig upp í Heiðmörk til að taka þátt í einhverjum "leik" hefði ég brúkað hvað sem vera skyldi sem afsökun fyrir þátttökuleysi.

Sem sagt, mitt félagslíf vil ég hafa í spunaformi. Skemmtilegast finnst mér þegar fólk sem ég er einhvers staðar með að gera eitthvað tekur uppá að tildæmis skreppa á kaffihús á eftir. Sniðugt, laust í reipunum, maður getur verið eins lengi eða stutt eins og manni sýnist. Eins og bjór eftir leikæfingar. Og svo náttúrulega gerast stöku sinnum snilldir eins og þegar við Siggi og Gummi Erl skruppum óvart niður á 22 og dönsuðum fram á morgun. Þess verður lengi minnst þar sem það var/verður líklega í síðasta skipti sem ég er í aðstöðu til að taka svoleiðis skyndiflipp í mörg ár.

Hins vegar vil ég alls ekki hafa leikhús í spunaformi. Þar vil ég hafa handrit, allavega þegar kemur að sýningu. Fátt fer meira í pirrurnar á mér heldur en spunaleikur á sviði, sérstaklega þar sem næstum enginn í heiminum hefur tök á því formi þannig að gaman sé á að horfa. Semsagt, handrit, eða allavega skýrar leikreglur a la Ágústa Skúla, á sviðinu, en lífið spuni án takmarkana, er mín draumastaða.

Come to think of itt, ekki skrítið að ég hafi fílað mig illa í Leikfélagi Hafnarfjarðar, þar sem stefnulitlir spunahroðar kallast "hryðjuverk" og þykja kúl og partýin lúta fleiri leikreglum en leikritin sjálf... hmmmm... interesting.
Auðvitað hefði ég aldrei átt að láta mér detta í hug að halda framhjá honum Hugleiki mínum þar sem handritagerðin er stór þáttur í æfingarferli og önnur starfsemi er spiluð eftir eyranu. Þetta liggur í augum úti, eins og kjeellingin sagði.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hei, til hamingju með óvæntuna!
Nei nei, ég er ekkert á eftir hérna niðri : )
Agnes