17.9.07

Aðkenning að Zúpervúman

Fyrir næstum tíu árum varð ég of geðveik fyrir nokkra tilburði til Zúpervúmunar. Reyndi að vinna eins og "eðlileg" manneskja. (Eða eðlilegur íslendingur, tvöfalt.) Flippaði yfir á geðlyf. Síðan hef ég verið að nokkru leyti, eins og einhver Montpellieringurinn orðaði það, í veikindaleyfi frá lífinu. Smám saman hafa önnur svið lífsins síðan verið að mjakast í átt til þátttöku, en það eina sem er eftir er starfsframinn. Segi ekki að atvinnuþátttaka hafi ekki verið alveg sæmileg. Og stundum alveg hreint miklu meira en það. En ábyrgðarstörf hef ég forðast meira en eldinn.

Í dag, nánar tiltekið í Krónunni, fékk ég síðan aðkenning að Zúpervúmani. Það gerðist þegar ég var að versla inn fyrir vikuna, ákveða hvað ég ætlaði að hafa í kvöldmatinn, meta hreinlætisvöruþörf heimilisins og versla afmælisbúnað, eftir að hafa farið með Freigátuna í leixkólann, svo í ræktina, að því loknu heim að læra fullt og þýða, og var á leiðinni í bumbusund áður en ég sækti Freigátuna aftur og færi heim og lærði meira með annarri hendi, með hina hendina á píanóæfingu Smábátsins og Freigátuna prílandi upp á hausinn á mér, eldaði að því loknu kvöldmatinn áður en ég færi á námskeið. Þá fattaði ég það allt í einu. Ég var að zúpevúmana. Það var ekki baun skerí, stressandi eða hættulegt. Eða kvíðaraskandi. Bara hreinasta skemmtun. Segi kannski ekki að ég sé alveg reddí í stjórnun Eddu útgáfu, en það styttist íða.

Auðvitað veit ég svosem að ég klikkaði á mikilvægu grundvallaratriði í gamla daga. Ég hélt að starfsferillinn ætti að ganga þannig fyrir sig að maður fyndi það sem væri best borgað af því sem maður kynni sæmilega, og settist að í svoleiðis starfi. Ég gleymdi að gera ráð fyrir að maður ætti að hafa einhvers konar gaman af því sem maður gerði, minnst 8 tíma á sólarhring. En, eins og ég var að játa um daginn, ég var talsverður fáviti þegar ég var yngri. Svo vítlaus, reyndar, að það gerði mig geðveika.

En núna er alltsaman að horfa til betri vegar. Fyrir næstum réttum þremur árum hrökk einkalífið í fúnksjónal úr dys-. Áður hafði akademíski ferillinn jafnað sig og klárað hina langþráðu meistaragráðu í fræðum bókmenntanna. Og nú er allt að verða hreint fullkomið. Reyndar fannst mér allt verða um það bil svoleiðis fyrir þessum tæpu þremur árum síðan, en síðan hefur allt lífið bara haldið áfram að bestna og bestna. Og alltaf þegar ég held að allt sé orðið fullkomið, þá bestnar það meira.

Og áfram í góðu fréttunum. Í dag vorum við Freigáta einstaklega aðlagaðar. Þegar hún grenjaði yfir brottför minni í dag vissum við báðar að það va hreinasta formsatriði. Ég var ekki komin út úr forstofunni þegar hún var hætt. Og ég fór heim með algjörlega hnútlausan maga og gat einbeitt mér að zúperi daxins með afbragðsárangri. Og það sem betra var, hún var ekki einu sinni hissa að sjá mig þegar ég kom að sækja hana, og það leyfði ekkert af því að hún vildi koma með mér. Mér fannst nefnilega eiginlega verst þegar hún grét þegar hún sá mig aftur, af örvæntingarfullum fögnuði, eins og hún hefði hreint ekki búist við því að sjá mig aftur. Núna er hún sem sagt búin að átta sig á því að ég kem alltaf aftur. Og okkur líður báðum betur.

Og nú er Zúpervúman búin að skrifa allt þetta blogg í hjáverkum, með því að klæða Smábátinn í pollagallann og senda hann í píanótímann, hafa ofan af fyrir Freigátunni á meðan hann æfði sig og parkera henni svo með seríós fyrir framan Píngú. Og ætlar að reyna að læra smá.

Zúper.

Engin ummæli: