21.9.07

Föstudagur til... fjárans?

Áður en ég gleymi því, Sigurvin bróðir minn er farinn að blogga frá Lundúnaborg. (Bjarkey, konan hans, bloggar reyndar líka en hennar blogg er læst svo ég nenni ekki að setja link á hana. Ég reikna með að allir viti um hana sem eiga að gera það.)
Allavega, þar með er fjölskyldan mín, þ.e.a.s. börn og tengdabörn foreldra minna, öll með reglulega skýrslugerð í netheimum. Það er ljómandi. Án hennar myndi ég t.d. ekki vita að Hugga syss var að selja íbúðina sína í dag og að Bára syss er komin í norska lúðrasveit. Heldur manni í sambandi.

Annars.

Þetta er nú búin að vera ljóta stressvikan. Og hún stefndi allan tímann á alstressaðasta daginn, í dag. Ég held það sé nú bara alveg ljóst að ég þurfi að fara að sætta mig við að 133,33 % nám, plús heimilið og óléttan og allt það, verður bara að duga á þessu misseri. Ég þarf til dæmis að hætta að þýða mér til viðurværis. (Ég þarf bara einhvern veginn að reikna fjárhaginn út þannig að ég þurfi þess ekki.) Ekki þar fyrir að eftir síðasta verkefni er ég margs vísari. Ég veit núna hvað allir í The Who hétu, og heita og að þeir hafa gert fullt af fleiri lögum en Pinball Wizard, til dæmis öll lögin úr byrjununum á CSI. Fróðlegt.
En gengur eiginlega ekki. Þegar maður hefur ekki tíma til að þrífa sig í tæpa viku, ja þá er bara of langt gengið. (Komst með harðfylgi í örskamma sturtu í morgun. Svo menn fari nú ekki að ímynda sér einhvern fnyk.)

Freigátan sló persónulegt met í vikunni og gat mætt í leikskólann í fjóra daga í röð! Í dag var hún hins vegar orðin horfoss og komin með smá hita, svo hún fékk að vera heima. Hún fékk m.a. að hjálpa til við sinn fyrsta baxtur og sleikti sleifar og skálar af mikill innlifun með öllu andlitinu. Hún er annars öll að hressast í leikskólanum og aðskilnaðurinn verður minna dramatískur með hverjum morgninum sem líður.

Núna er sumsé búið að sulla í ammlistertur fyrir bekkjarammli Smábáts sem haldið verður síðdegis. Í þetta sinn var nú samt tekin harðlínustefna varðandi allan umbúnað, aðeins var veitt leyfi fyrir að bjóða strákunum í bekknum og einhverjum örfáum fleiri félögum. Síðustu tölur herma að tveir komist ekki, svo það verða 10 manns sem koma til með að gúlla í sig pizzum og köku fyrir DVD-inu. Þar sem veðrið er bilað gott, reikna ég með að henda þeim síðan öllum út á trampolín að áti loknu.

En áður en þetta brestur á, þarf nú að erinda dáldið. Smábátsamma kemur um þrjúleytið og passar krúttin á meðan við Rannsóknarskip skreppum upp á Landspítala að láta athuga Ofurlitlu Dugguna. Já, nú er víst meðgangan hálfnuð og kominn tími á hina bráðskemmtilegu geimsýningu sem kallast sónar. Síðast sátum við nú bara, frekar álfaleg á svip, og sáum nú ekki mikla mannsmynd á þessu. En þá er bara að trúa konunni þegar hún segir að þarna sé handleggur og hitt sé haus og að allt sé í þessu líka glimmrandi lagi. Einhvern veginn text þeim nú líka oft að smella af sæmilega greinilegum myndum, og svo fær maður nottla viðmiðunardagsetninguna. Spennó.

Í bakaleiðinni þarf að versla gos og rjóma og eitt og annaðm sækja svo dót Freigátu á leikskólann og vera svo komin heim og búin með restina af undirbúningnum áður en strákastóðið brestur á, um fimmleytið. Öllu þarf síðan að vera búið að fleygja út klukkan 19:30 þegar Smábáturinn þarf að mæta í flug.

Svona einhvern veginn er skipulagið búið að vera hjá okkur. Allt brjálað hverja mínútu og ekkert má klikka neittm þá fer skipulagið, og þar með heimurinn, í vaskinn. Og nú er ég búin að þurfa að þýða og þýða svo heimavinnan mín í skólanum er komin lengst á eftir áætlun. Er til dæmis lítið búin að geta skoðað það sem ég ætla að þýða í maraþonþýðingadæminu á morgun. Því síður búin að setja saman ritaskrá um Molier, klassisima og Frakkland á 17. öld. Eða einu sinni gá hvaða kjánaskap hann Höskuldur er búinn að ætla okkur í Fræðilegu skrifunum fyrir miðvikudag.

Það liggur nú bara við að maður fari að hlakka til fæðingarorlofsins...

1 ummæli:

Siggadis sagði...

Úfff... ég fékk bara verk í kviðinn við lesturinn og er fegin að það er að koma helgi hjá þér :-) Góða skemmtun í sónarnum í dag!