21.9.07

Fjúff

Þá er þessi blessaði dagur lox alveg að verða kominn að háttatíma. Afmælisveislan fór óskaplega pent fram. Ekki mætti nema um helmingur þeirra sem boðið var. Svona á föstudögum er líklega alveg óhætt að bjóða öllum 30 manna bekknum. Heimturnar verða aldrei nema sæmilegar. Freigátan situr nú við að tryggja að ekki verði hægt að nýta pappadiskana sem eftir urðu síðar, Raðar þeim á gólfið, sleikir þá alla og makar í hori, samviskusamlega, og labbar svo á þeim.

Annars var hápunktur daxins auðvitað sónarinn. Þetta barn er nú bara alveg eins og fólk í laginu, veifaði og gretti sig og var með öll líffæri, innri og ytri, á réttum stöðum. Tíu putta og tíu tær og að minnsta kosti eitt auga. Formlega ásettur fæðingardagur er nú 8. febrúar. Mér fannst nú svipurinn á Duggunni eitthvað strákalegur, en við báðum ekki um að fá að vita neitt um þau mál.

Það verður nú að segjast. Þó allt sem ég er að brasa þessa dagana sé hvert öðru skemmtilegra og meira spennandi, þá er nú ekkert sem slær barnalánið út í skemmtun, spenningi og almennri lífsfylling. (Skrifaði hin verandi og verðandi móðir, sæl á svip, og hélt áfram að telja mínúturnar þar til væri sniðugt að setja horfossinn í bælið.)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sjöundi febrúar hefur gefist vel til barneigna á þessu heimili. Hins vegar virkar áttundi betur til að fá fallega kennitölu.