19.9.07

Miðvikudagur!

Upp er runninn enn einn maraþonskóladagurinn, undursamlega fagur eins og þeir eru jafnan. Hjólaði með Freigátuna í leikskólann. Eins og stóð til að gera alltaf á þriðjudögum og miðvikudögum þar til grindverkurinn næði endanlegri yfirhönd, en þetta er nú bara í fyrsta sinn sem hún er alveg óveik og leixkólafær á miðvikudegi.

Ýmis áður óþekkt rannsóknarverkefni eru óumflýjanleg í þessari skólagöngu, sem ég hef aldrei þurft að fást við fyrr. Allt í einu þarf ég að vita hvað klósettin eru. Hér áður fyrr held ég að ég hafi sjaldan eða aldrei pissað í skólanum. En var þá líka allsendis ó-ólétt of jafnan með vökvatap eftir síðasta fyllerí. (Ójá, minningarnar sem mæta manni hér á göngunum eru óneitanlega gjarnan þynnkukenndar.)
En núna veit ég um klósett í Aðalbyggingunni (meiraðsegja tvö!) Odda og Árnagarði. Mikill persónulegur sigur.

Ýmislegt hefur líka breyst í undarlegar áttir. Þó mér hafi ekki tekist að tengjast alnetinu í gegnum hið loftræna, sem mig grunar þó að liggi hér yfir öllu, þá virðast flestir geta það og hanga í netheimum á sínum eigin tölvum hérna úti um allt. Þetta hefur hins vegar í för með sér allsendis galtóm tölvuver á hverju strái. Og ég sit einmitt í einu svoleiðis og þarf að kála einum klukkutíma áður en ég þarf að mæta næst.

(Fundir í hinu Hagnýta rannsóknarnámskeiði taka nefnilega hreint ekki þann tíma sem stendur í stundartöflunni. En við eigum að nota tímann í verkefnistengt. Enda er ég að huxa um Baudelaire. Þ.e.a.s., ég er að huxa hvað ég veit hroðalega lítið um hann og hvað ég þarf mikið að fara í bókhlöðuna í næstu viku. Og halda mér vakandi þar. Yfir rannsóknum á frönsku ljóðskáldi. Hmmmm... ef það gerir ekki útaf við áhugakastið gerir það sennilega bara ekki neitt.)

Síðast en ekki síst; ég þakka snöfurmannleg viðbrögð ráðleggjenda í svari við fyrirspurn síðasta pistils. Endilega ekki hætta, detti fleirum fleira í hug, þó ég hafi ekki getað stillt mig um miðvikudaxrantið. Ég þarf nefnilega að skoða þetta örsnöggt og velja mér verkefni fyrir laugardag. Hvenær það á að þykjast gerast er hins vegar á nokkuð huldu. Skóli til 18 í dag, leikstjórnarnámskeið í kvöld, martraðarlega mikið eftir af þýðingu sem ég á að skila á föstudaxmorgun, og þá tekur við undirbúningur afmælis Smábáts í formi skynditiltektar og baxturs. (Já, það verður Bettí Krokker og ekki orð um það meir.)

En, manni býst nú alltaf einhvern veginn til tími, ef mann vantar.

Síðar:

Síðasti tími daxins er ævinlega hjá manninum sem vill helst tala um málvísindi. Þetta hefur hentað mér ágætlega. Þar sem ég skil álíka mikið í málvísindum og kínversku og gef þess vegna heilanum á mér frí um leið og einhver nefhljóða og u-hljóðvörpunarþvæla fer í gang. (Enda er maðurinn ekkert að kenna okkur málvísindi. En honum finnst bara skemmtilegt að taka dæmi um allskyns úr því fagi.) En ég er gjarnan, klukkan 15:00 til 17:20, á ofurskóladegi, alveg tilbúin í smá heilasvefn.

Í dag gerðist hið hroðalega. Ég gleymdi að loka heilanum, og skildi það sem hann var að segja. Mig langaði mest að stinga puttunum í eyrun og syngja.

Það er bara ekki pláss fyrir eitthvað alveg nýtt og ótengt öllu hinu sem ég er að gera, í hausnum á mér. Ef ég heyri eitt málsvísind í viðbót sem ég skil, þá snýst hausinn á mér í hringi, úr hálsliðnum og springur. Ofvaxnar heilaslettur út um allt.

Til að reyna að forðast þetta, or forðast að sofna, er ég þess vegna bara að skrifa blogg. Best að reyna að huxa um eitthhvað spennandi. Er til dæmis, á námskeiðinu í dag, að láta einhvern óþekktan gestaleikara beita mig heljarinnar heimilisofbeldi, undir stjórn Júlíu Hannam, eftir að ég tjái viðkomandi að mig langi til að sofa hjá honum/henni. Gaman hjá þeim sem fær að berja óléttu konuna...

Enn síðar:
Klukkan meira en ellefu. Loxins komin heim. Blerrrrghsyfj...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

heisann - hvunær ertu í aðalbyggingu í tíma?? hef nubninlega ekki séððig ennþá?

Sigga Lára sagði...

Ég er þar milli 15:50 á þriðjudögum og milli 10 og ca. 12 á miðvikudögum. Kennararnir mínir eru hins vegar ekkert fyrir að gefa okkur pásur á lögbundnum tímum.

Sigurvin sagði...

Já, ég gæti nú alveg trúað að fleiri heilar okkar systkyna verði við það að springa í vetur af námsorsökum, svo ég tali nú bara fyrir hönd míns eigins.
Annars var ég loksins að byrja með blogg:
http://sigurvinbs.blogspot.com/
Þú tékkar á því.

Nafnlaus sagði...

betty crocker er vinkona mín..mér þykir vænt um hana
Að leita að klósettum er góð skemmtun, settin í aðalbyggingunni eru samt fyndnust.
gangi þér vel að ofurkonast
kv. Gilitrutt