14.9.07

Betri dagur

Freigáta var miklu hressari á leikskólanum í dag, og var víst bara svaka dugleg að leika sér. Rosalega fínt að fara í bumbusundið í þessu leikskóladrama, í mínum bekk eru allavega þrjár konur sem vinna, eða hafa unnið, á leikskólum. Þær segja allar að þetta lagist bráðum og að barnið muni ekki bíða nokkurt tjón á sálu sinni. Sem er nú léttir að vita. Enda var hún bara öskrandi kát þegar ég sótti hana í dag. Nýbúin að stofna til hópverkefnis þar sem börnin voru búin að raða bollastelli í langalanga röð á gólfið.

Sjálf var ég hins vegar alltof löt í dag. Lærði næstum ekkert, svaf bara og haugaðist í morgun, og er einmitt núna að skammast mín. Hins vegar er bót í máli að Rannsóknarskip er á fylleríi, Smábátur í láni og hin röðunarsjúka Freigáta sofnuð, svo nú gæti ég alveg farið að læra... Ef það væri ekki alveg að fara að byrja Law & Order.

Annars er Freigátan farin að sýna takta í þá átt að verða talsvert húslegar sinnuð en móðir hennar. Hún leggur á borð, setur í og tekur úr þvottavélinni og vill mjög gjarnan fá að hjálpa til í uppþvottavélinni líka. Verst að hún verður óstjórnlega sár þegar verkefninu er lokið.

Mér finnst alltaf jafnfyndin auglýsingin þar sem Indra er að tala um Ellur úti í bæ sem blogga um ekkert. Ég hef nefnilega grun um að hún lesi stundum mitt. Allavega minntist hún einhvern tíma á það. Og það er nú líklega vandfundið blogg sem fjallar um færra. Hins vegar finnst mér alveg hundskemmtilegt að lesa sjálfa mig aftur í tímann, stundum. Og stundum þarf ég að fletta uppá einhverju. Þannig að ég held ég sé ekkert að fara að blogga minna. Eða innihaldsríkara.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er alltaf jafn gaman að lesa blogg! Sumir eru bara... "pennar" og í þeim hóp ert þú meðtalin! Svo ekki voga þér að fara að blogga minna!! Þá.. þá... sko... djö... finn ekki upp á neinu til að hræða þig með... nema þá að ég birtist í dyrunum einn daginn og dragi þig á hárinu að tölvunni!!! LOL :o)

Nafnlaus sagði...

Æ ræfilstuskan! Þetta er erfitt tímabil, við Ágúst erum akkúrat núna að ganga í gegnum þetta sama á leikskólanum, svo kemur þetta allt saman. Vertu bara fegin á meðan hún strýkur ekki af leikskólanum og heim til sín (eins og ónefndir bræður gerðu fyrir rúmri viku!).
Ps. Ekki voga þér að hætta að blogga! Þú ert snillingur.