4.10.07

1985?

Ég hnaut... ja datt eiginlega bara kylliflöt... um það litla sem ég heyrði af predikun Séra Halldórs (minnir mig að hann hafi heitið) sem predikaði fyrir setningu Alþingis um daginn. Ég varð svo föj að ég náði ekki upp í nefið á mér í klukkutíma. Hann vildi sumsé meina, blessaður maðurinn, að börnum væri "komið fyrir" í dagvistun og síðan skóla sem "ættu síðan að sjá um uppeldið" minnir mig að hann hafi orðað það orðrétt. Og þetta voru sumsé hnýtingar í foreldra.

Nú er ég foreldri og þekki svona milljón slíka. Ég veit ekki um einn einasta sem er þeirrar skoðunar að leikskólar og skólar eigi að "sjá um" uppeldið, eitthvað. Hins vegar hefur mér sýnst mikil þróun hafa orðið í meiri samskiptum á milli foreldra og mennta- og dagvistunarstofnana, allavega síðan ég var í skóla. Þá þurfti foreldrar nú bara ekkert af skólanum að vita nema krakkaormurinn kveikti í einhverju eða hálfdræpi einhvern annan. Núna eru hins vegar samráðsfundir, foreldrafundir og allskonar samráð haft við foreldra um hvaðeina sem viðkemur börnunum, allan veturinn. Við fáum til dæmis skýrslu um hvernig Smábáturinn hefur staðið sig eftir hverja viku og fáum að vita hvaða uppeldisleg "þemu" er verið að vinna með á hverjum tíma, svo við getum unnið með það sama heima.

Um leikskólann segi ég það sama. Það koma fréttabréf, maður spjallar við starfsmenn á hverjum degi og allir reyna að vera samstíga um uppeldi hverskonar.

Maður gæti svosem reynt að sannfæra sjálfan sig um að skólar og leikskólar ætti að "sjá um uppeldið" en þá er ég hrædd um að maður þyrftu að vera það langt leiddur af skorti á heilbrigðri skynsemi að barnaverndaryfirvöld ættu hvort sem er að blanda sér í málið.

Auðvitað kom í framhaldi af þessu, í ræðu prests, eitthvað með að "foreldrar ættu að beina meiri athygli inn á heimilin..." (Lesist sjálfsagt: Að kellingar komi sér nú á bak við eldavélarnar, þar sem þær eiga heima.) En þarna þótti mér síra fylgjast einstaklega illa með því sem er að gerast í þjóðfélaginu.

Auðvitað erum við ennþá frekar nýskriðin upp úr moldarkofunum og erum í raun enn að læra að ala börn upp í þéttbýli. Og það tók alveg nokkra daga að byggja Róm. En ég held að við séum nú bara á réttri leið með þetta allt saman. Það þarf heilt samfélag til að ala upp barn og ég er ekki frá því að samfélögin séu farin að vinna betur saman en áður að því verkefni.

En mikið varð ég pirruð fyrir mína hönd og annarra foreldra þegar ég heyrði þetta. Sálin lagðist alveg á neikvæðu hliðina og ég nöldraði við sjálfa mig lengi dax.
Það endaði nú samt með því að jákvæða hugarfarið rifjaðist upp fyrir mér og að endingu tóxt mér að huxa:
"Blessaður maðurinn. Hann hefur ruglast og gripið með sér ræðuna frá 1985."

5 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Það einmitt snöggfauk í mig í dag yfir einhverju bloggi á svipuðum nótum og mitt svar er þetta:

Mínum börnum líður báðum bara mjög vel í sinni 9 tíma vistun og frá því við komum heim og fram að háttatíma reyni ég síðan að gera ekkert annað en sinna þeim. En það er búið að innræta svo mikið í mann samviskubiti yfir þessu og úr því maður var að eignast börn af hverju er maður þá ekki heima að hugsa um þau og blablabla og ég er bara í uppreisn á móti þessu! Ég er alveg sammála því að leikskólakennarar eru að vinna mjög mikilvægt starf og eiga að fá almennilega borgað fyrir það. En ég ætla bara ekki að hlusta á það að ég sé að losa mig við börnin og reyna að vita sem minnst af þeim. Enda mæti ég alls ekki því viðhorfi á leikskólum minna barna, sem betur fer.

Og hananú og takk fyrir það!

Spunkhildur sagði...

Já og helvíti bara, öfugt ofaní hempuna. Fliss.

villi sagði...

jamm, sitt sýnist hverjum, kannski sírann vilji að við tökum Dugger-fjölskylduna okkur til fyrirmyndar.

Nafnlaus sagði...

Elsku ljúfan mín, ekki láta séra Halldór bögga þig, hann er presturinn sem sagði okkur söguna af henni Siggu litlu sem stal kökunum og sá svo eftir því að hún nagaði sig í handakrikana!!! og hann gaf mér "Forkunnarágætt" í einkunn á fermingarfræðsluprófi! Hann var sumsé presturinn heima frá því að ég man eftir mér og er ástæða þess að ég hætti við að verða prestur,- það var staðföst ætlun mín alveg til 12 ára aldurs, þá jarðaði séra Halldór það...vildi ekki vera kollega hans! Knús ljúfan mín og njóttu þess bara að vera mamma, það er allur galdurinn ekki hvað við eyðum mörgum tímum með þeim.

Sigga Lára sagði...

Hihi. Fyndið. Og ég sem hélt að blessaður maðurinn hefði bara verið svona óheppinn með dæmi... en hann má greinilega hafa ýmislegt á samviskunni.
Ekki hefði nú verið amalegt að geta látið séra Höllu skíra fyrir sig, ferma og gifta...

En forkunarágætt er hins vegar ágætisorð... Fer í uppáhaldsorðasafnið einhversstaðar í grennd við þvergirðingsbjána.