3.10.07

Og þá kom blessað pensilínið

Rannsóknarskip gafst alla leið upp á sleppunni í dag og leitaði læknis. Uppskar í þetta sinn það sem ætlunin var að sá til, þetta fína pillubox með 10 daga pensilínkúr. Freigátan fær sín meðul í augun og ku eiga að verða úr allri hættu á að smita önnur börn á morgun. Og má þá fara í leikskólann sinn. (Útlitið á henni finnst mér nú samt ekki hafa lagast í dag. Núna er eins og hún sé með glóðaraugu á báðum.) Smábátur er fílhraustur sem endranær. Svo á morgun fær ég væntanlega að sitja ein í verkefnasúpunni og veitir ekki neitt af.

Og það er að frétta af ad hoc-inu að forsætisráðherra bjargaði engu, hann reyndi ekki einu sinni að rökstyðja neitt sem hann sagði. Þar með gafst ég upp á þessu fokkíngs verkefni og sendi Þröskuldinum skýrslu þar að lútandi. Hef ekki huxað mér að fara í mikla leit að dæmum fyrir þessi verkefni í framtíðinni. Geri þau bara ef ég dett um eitthvað. Það er ekki hægt að eyða öllum þessum tíma, í að leita að illa skrifuðum greinum, fyrir 3% af einni einkunn. Ég huxa að bróðir minn í hagfræðinni myndi alveg staðfesta að það væri léleg lærdómshagstjórn miðað við núverandi ástand.

Það er annars skrítið hvað þeir hafa stytt annirnar síðan ég var síðast í skóla. Þá gat maður nú alveg dinglað sér og huxað "isssss" mánuðum saman, það glitti hvortsemvar ekkert í annarlok eða verkefnaskil. Núna hefur þetta einhvernveginn gnæft yfir og nálgast óðfluga síðan í september og mér sýnist þessi önn hafa algjörlega tekið á sig lögmál Bandalaxskólans. Hann er einmitt alltaf strax búinn.

Hið lyfjaða Rannsóknarskip ætlar út í bæ að horfa á fótbolta, með alla sína sleppu, Smábátur er á leiðinni á leikæfingu á eftir og ég er allllveg að sofna.

2 ummæli:

Hugrún sagði...

Nú já pillur í boxi. Ég er líka slöpp, kannski ég þurfi líka pillur. Hver var sjúkdómsgreiningin?

Sigga Lára sagði...

Engin sérstök, held ég. Bara þrátlát flensa eða eitthvað.