5.10.07

Mér finnst rigningin... alltaf

Í dag er geðheilbrigðisdagurinn. Í tilefni þess ætla ég að hnýta svolitlu og leiðinlegu um unglingadrykkju.
Þegar ég var í menntaskóla og háskóla drakk ég bara alveg fullt. Og oft. Og það var allt í lagi af því að það gerðu það allir. Svo hefur skotið upp kollinum eitt og eitt geðrænt vandamál. Gjarnan félaxtengt. Nú hef ég ekki snefil af rannsóknum á bak við mig, en stundum hvarflar að mér að huxanlega ætti ég ekki við jafnmikil geðræn og félaxleg vandamál að stríða, hefði ég ekki notað og misnotað áfengi svo mikið á þeim miklu félagsmótunarárum sem aldurinn 16 - 23 ára er... Það er nokkuð rökrétt að menn sem styðjast við örvandi/deyfandi/skemmtilegandi lyf í flestum félagslegum kringumstæðum á meðan þeir eru að þjálfa færni sína í þeim hinum sömu, verði kannski ekkert sérstaklega góðir í þeim.
Og nú er miðaldra fyrsta kynslóðin sem ætti kannski að hafa einhverja hugmynd um þetta. Foreldrar mínir ólust upp fyrir tíma unglingadrykkju. (Eða svo segja þau, allavega ;-) En ég huxa að ég reyni að leiða mínum unglingum hættuna á því arna fyrir sjónir.
Þó maður geti svo sem alveg lifað með því, þá væri nú eiginlega betra að vera bara ekkert geðveikur.

Annars. Það er ennþá rigning. Mér finnst hafa rignt síðan ég man eftir mér. Og eftir gærdaginn var ég eiginlega viss um að vatnið hlyti að fara að verða búið. En, nei.
Ekki er það nú gott fyrir geðheilbrigðið.

Frí vegna samráðsfunda í skóla Smábáts í dag. Hann er á leið í afmæli. Að því loknu fara þeir Rannsóknarskip til æfinga uppi í Borgarleikhúsi. Ég raxt á litla frétt um Margt smátt í Blaðinu áðan. Með henni var mjög villandi myndskreyting af sjálfri mér og blinda hnífakastaranum í sirkusbúningum. Þetta er að ég held í fyrsta sinn sem er mynd af mér með tilkynningu um Margt smátt. Og í fyrsta sinn sem ég ætla ekki einu sinni að mæta. Sniðugt.

En, ljúkum þessu með plöggi:

Stuttverkahátíðin Margt smátt verður í Borgarleikhúsinu á morgun. Hefst klukkan 14.00. Í boði verður aragrúi stuttverka, flutt af mörgum leikfélögum. (M.a. eitt verk eftir Rannsóknarskip, annað verk sem hann leikstýrir og það þriðja sem Smábátur leikur í.) Nánari upplýsingar á Leiklistarvefnum. Það er gaman að svona sýningum. Ef manni finnst eitthvað leikrit leiðinlegt, þá er það nefnilega allt í lagi. Það kemur strax annað.

5 ummæli:

Ásta sagði...

Það virðast fá leikrit vera jafn ódrepandi í hugum blaðamanna og Sirkus. Og alltaf á eftir að taka upp tónlistina.

Nafnlaus sagði...

Þetta er greinilega tímalaus mynd sem alltaf á vel við. Enda tökum við okkur gríðarlega reffilega út.

Við hljótum svo að verða á coverinu á disknum, þegar hann kemur út...

Sigga Lára sagði...

Ég myndi allavega hafa hattinn á coverinu. Eitt mest snilldarverk búningasögunnar. (Og manndrápsvont að hafa hann á hausnum.)

Nafnlaus sagði...

Ha??? Er ekki geðheilbrigðisdagurinn 10. október???

Nafnlaus sagði...

Er það? Ég hélt hann hefði verið í gær... Jæja. 10. október er líka alveg vel viðeigandi sem geðheilbrigðisdagur. Blogga um það þá.