16.10.07

Sundlaus dagur

Freigátan endurtók leikinn í morgun og stökk í fangið á leikskólakennaranum sínum og kvaddi Móðurskipið með virktum. Þar með hættir það að vera fréttnæmt.

Í dag er sundlaus dagur sem þýðir að ég ætla að vera hrrroðalega dugleg. Þegar er ég búin að klára fyrstu aðför að því að þýða tvo kafla úr einu leikriti (fyrir skólann) svo þarf ég að klára að læra almennilega á eina græju sem maður tekur viðtöl inná og klippiforrit til að klippa þau til (fyrir skólann) og svo þarf ég að klára að glöggva mig á smávegis úr Sögu Bandalaxins, en er einmitt að fara upp á Bandalag á morgun til þess að taka viðtöl við formann og söguritara. (Fyrir skólann.) Sjá menn hvað ég er lymskulega búin að lauma öðrum þáttum lífs míns inn í það sem ég kalla "skólann"?

Einnig þarf ég eitthvað að skoða betur þá félaga Moliere og Baudelaire. Ekki gerði ég mér grein fyrir því að eftir að hafa "lært" í Frakklandi sit ég uppi með ferlega mikið af Frökkum í verkefnum þar sem, til dæmis, þarf að skipta höfundum á milli. Og svo er ég orðin forfrömuð í frönskunni að þegar ég var að glugga í heimildir um hann Moliere í síðustu viku var ég alveg búin að glugga og glugga áður en ég fattaði að sumt af því var alls ekki á ensku, heldur frönsku. Svo eftirlifandi franskan mín er greinilega eitthvað betri en ég hélt.

En nú er bezt að halda á spöðum. Er að vona að ég geti búið mér til tíma til að skreppa upp í Kringlu og versla smá afmælisgjöf fyrir Smábátinn og athuga hvort ég finn ekki kuldagalla á Freigátuna. Allt í einu er nefnilega alveg orðið gargandi kalt og örugglega ekki í síðasta sinn í vetur.

Það eru ennþá óttalega mikil hóstakjöltur í Rannsóknarskipi og Freigátu. Ég fer alveg að senda þau í lungnaspeglun.

Engin ummæli: